139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara ítarlega yfir þessa tillögu í ræðu sinni áðan. Það leiddi í ljós að við erum sammála um eitt og annað en við erum líka ósammála um ýmislegt. Hins vegar er aðaláhyggjuefnið að þetta svokallaða samstarf sem hæstv. ráðherra talaði um að væri svo mikilvægt, hefur fram að þessu ekki reynst raunverulegt samstarf þar sem tekið er tillit til tillagna stjórnarandstöðu og þær skoðaðar til jafns við aðrar. Það birtist meira að segja glögglega hjá hæstv. forsætisráðherra áðan þegar hún gagnrýndi eina af tillögum sjálfstæðismanna af því að hún kom frá þeirra flokki en hún hafði sjálf lagt fram nákvæmlega sömu tillögu deginum áður. Enn og aftur virðist allt ganga út á það frá hverjum tillögurnar koma. Og hæstv. forsætisráðherra sagði líka að hún gæfi ekki mikið fyrir tillögur stjórnarandstöðunnar almennt en í næstu setningu talaði hún um að allir þyrftu að vinna saman og við þyrftum að skoða allar tillögur frá öllum.

Er nema von, hæstv. ráðherra, að maður velti fyrir sér hvort einhver alvara sé á bak við þetta þegar maður upplifir aftur og aftur sömu spunaumræðuna eins og þegar hæstv. forsætisráðherra hélt því fram áðan að vandinn væri ekki ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin væri ekki ástæðan fyrir því að ekkert gengi heldur að þingið ynni ekki nógu vel saman. Í fyrsta skipti í stjórnmálasögu Íslands er úrræðaleysi ríkisstjórnar ekki ríkisstjórninni að kenna heldur stjórnarandstöðunni ekki síður. Spurningin er þá: Þýðir þetta ekki bara að eina raunhæfa leiðin til að menn geti unnið saman og hlustað verði á tillögur stjórnarandstöðu sé að mynda þjóðstjórn? Leggst hæstv. ráðherra gegn því að hér verði mynduð þjóðstjórn ef ríkisstjórninni er svo mikið í mun að allir vinni saman?