139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:52]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef hlustað á tunnuslátt hér í tæpa tvo klukkutíma eða frá því þingfundur hófst og í mínum huga er tunnuslátturinn krafa um að við sem hér sitjum, háttvirtir þingmenn, vinnum saman að því að finna lausnir á vandanum sem við stöndum frammi fyrir. Þegar við vinnum að þeim lausnum eigum við ekki að fara í manngreiningarálit eða velta því fyrir okkur hvaðan tillögurnar koma.

Það hefur því miður verið þannig, virðulegur forseti, að miklu máli hefur skipt hvort það eru Vinstri græn, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur, Framsókn eða Hreyfingin sem koma fram með tillögur. Það hefur líka skipt máli hvaða einstaka þingmenn innan ákveðinna flokka koma fram með hugmyndir til að þær hugmyndir fái brautargengi. (Gripið fram í: Rétt.) Þetta er merki um að við getum ekki viðurkennt að flokkar og fólk meti aðstæður og komi fram með tillögur út frá mismunandi forsendum.

Ég vil byrja á því að hrósa Framsóknarflokknum fyrir að geta staðið fyrir utan þetta samfélag og komið með raunhæfar hugmyndir um m.a. hvernig taka eigi á skuldavanda heimilanna. Sumir þingmenn hafa einfaldlega aðra þekkingu eins og einhverja þekkingu á fjármálakreppum og viðbrögðum við þeim annars staðar frá. Því miður hefur slík þekking ekki þótt duga til að smíða lausnir á vandanum sem við búum við.

Virðulegi forseti. Ég ætla að snúa mér að þingsályktunartillögunni sem hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins mælti fyrir og felur í sér ályktun um að hæstv. forsætisráðherra komi á fót samvinnuráði. Ég vil hrósa Framsóknarflokknum fyrir val á hugtaki því eins og við flest vitum felst ákveðinn skilningur í samvinnu sem er einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þegar fólk vinnur í samvinnuráði á ekki að skipta máli hver á ákveða hugmynd, tillögu eða annað. Því miður er því þannig farið að okkur Íslendingum hefur tekist að afskræma þetta hugtak. Meira að segja húsnæðissamvinnufélögin okkar eru engin húsnæðissamvinnufélög. Ég nefni sem dæmi Búseta sem hefur tekist að einkavæða eignarhluta einstaklinga í íbúðum sínum í stað þess að láta félagið sjálft — einn fyrir alla og allir fyrir einn — eiga þessa eignarhluta. Ég vil leggja til, virðulegur forseti, að við endurhugsum þetta hugtak og endurskoðun á löggjöf um húsnæðissamvinnufélög verði ein lausn á skuldavanda heimilanna.

Hér liggja fyrir tíu góðar tillögur sem Framsóknarflokkurinn kallar markmið samvinnuráðsins. Það er nú kannski smámunasemi en ég hefði viljað skipta þessu upp í markmið og aðgerðir. Mér sýnist þetta vera hvort tveggja. Þarna er t.d. talað um aðgerðir sem ég get verið sammála og ætti ekki að koma neinum á óvart. Það er almenn skuldaleiðrétting, lækkun stýrivaxta, stytting fyrningarfrests krafna og ekki síst endurskipulagning ríkisfjármála og endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þarna eru líka markmið eins og stöðugt verðlag sem hægt er að ná með aðgerð eins og afnámi verðtryggingar.

Virðulegi forseti. Ég ætla mér í ræðu minni að setja tillögurnar í almennt efnahagssamhengi og bæta mínum hugleiðingum við þær í anda samvinnu. Vonast ég til að þetta geti fleytt umræðunni áfram.

Ég er nýkomin frá Bandaríkjunum þar sem fram fer mikil umræða um efnahagsástandið þar í landi og í heiminum. Sagt er að ástandið sem við búum við í dag sé samdrátturinn mikli eða Great Recession. Þar er vísað til kreppunnar miklu um 1930 sem heitir á ensku Great Depression. Þessi samdráttur er mikill og meiri en við höfum áður upplifað eða frá því að kreppan mikla skall á. Samdrátturinn mikli lýsir sér í því að við erum komin í vítahring. Vítahringurinn felst í því að við búum við minnkandi eftirspurn eftir fjármálakreppuna og minnkandi eftirspurn leiðir til þess að ekki er eftirspurn eftir vörum og þjónustu. Fyrirtækin draga því saman og það leiðir til aukins atvinnuleysis og minnkandi skatttekna. Til að bregðast við því sker ríkið niður sem leiðir af sér enn minni eftirspurn. Síðan heldur hringrásin áfram.

Í Bandaríkjunum er talað um að fyrstu aðgerðir Obama-ríkisstjórnarinnar, sem fólust í því að dæla peningum inn í bankakerfið til að bjarga því frá hruni, dugi ekki lengur eða áhrif þeirra fari dvínandi. Nú þurfi einhverja mikla aðgerð til að örva raunhagkerfið. Þá er átt við bæði fyrirtæki og heimili. Nú þurfi meira örvandi aðgerðir en við höfum nokkurn tímann áður séð. Við vitum öll að þegar kúla er komin inn í spíral þarf mikið högg á kúluna til að koma henni út úr honum. Þess vegna var ekki nóg að dæla peningum inn í bankakerfið, það þarf að dæla ekki minni upphæð inn í raunhagkerfið, inn í fyrirtækin og heimilin. Það þýðir auðvitað, á sama hátt og í kreppunni miklu, að mikill halli verður á rekstri ríkisins til að standa vörð um velferðarþjónustuna og tryggja hana. Störfin í velferðarþjónustunni skapa náttúrlega eftirspurn af því að fólk fær laun fyrir störf sín þar. Jafnvel er talað um að ríkið þurfi að vera atvinnurekandi og kaupandi vöru og þjónustu til þrautavara. Þar er vísað til þess að seðlabankar eru yfirleitt lánveitendur til þrautavara. Þegar komið er í þennan vítahring minnkandi eftirspurnar og aukins atvinnuleysis verður ríkið að koma inn og stöðva þróunina.

Ef við lítum á ástandið á Íslandi hefur eftirspurnin dregist saman um 25% á síðastliðnum tveimur árum. Það hefur fjárfesting líka gert. Þetta er mjög mikill samdráttur miðað við það að verg landsframleiðsla hefur bara dregist saman um 10%. Það er algjört hrun í eftirspurn og kaupmætti heimilanna. Jafnframt hefur orðið algjört hrun í fjárfestingum. Efnahagsstefna okkar þarf því að miðast fyrst og fremst að því að örva fjárfestingu fyrirtækja og þá sérstaklega í atvinnuskapandi starfsemi. Jafnframt þarf að örva eftirspurnina í samfélaginu. Það er ekki nóg að fá fyrirtækin til að fjárfesta og auka framboð af vörum og þjónustu ef engir eru kaupendurnir. Til að auka fjárfestinguna er mikilvægt að lækka vextina töluvert umfram það sem gert hefur verið hingað til. Ég vil sjá vextina fara niður í 3% og jafnvel nær því sem gerist í kringum okkur, um 0–1%. Fjárhagsleg endurskipulagning er einnig nauðsynleg. Eftirspurn þurfum við að örva, m.a. að hækka lægstu laun og þar með bótaupphæðir. Það er algjörlega ólíðandi að fólk þurfi að standa í biðröðum og betla mat hjá þjóð sem er með þeim ríkustu í heiminum. (Forseti hringir.)