139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var merkilegt hvernig hæstv. ráðherra reyndi að komast hjá því að svara einni af þeim spurningum sem ég lagði hér fram, hann eyddi mörgum orðum í að tala um eitthvað allt annað. Ég spurði hæstv. ráðherra: Þegar kemur að ofanflóðavörnum fyrir austan, norðan og vestan — verk sem eru tilbúin til útboðs, og hafa verið tilbúin í á annað ár — af hverju hafa menn ekki komið þessari atvinnustarfsemi af stað og þessum öryggismálum sem varða íbúa þessara svæða?

Ekkert atvinnulíf getur búið við 16–20% stýrivexti, það veit hæstv. ráðherra. Nú eru þeir 5,5% á meðan þeir eru 0–1% í mörgum af samkeppnisríkjum okkar. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort hann telji að stýrivextir séu ásættanlegir í þessu samfélagi í dag. Ég segi nei. Það þarf að koma krafti í íslenskt atvinnulíf, það þarf að bæta starfsumhverfi íslensks atvinnulífs en það hefur ekki verið að gerast að undanförnu.

Ég vil að lokum inna hæstv. ráðherra eftir því, af því að við áttum ágæta umræðu um þetta mál á síðasta þingi, hvers vegna í ósköpunum — nú veit ég að hann er ekki einráður hér í þinginu — svona góð mál stoppa í nefndum þingsins. Hvernig í ósköpunum stendur á því að þegar þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram frumvarp, sem við höfum lagt mikla vinnu í, við höfum fengið jákvæðar umsagnir frá þingmönnum allra flokka, er málið látið stranda inni í nefnd? Þurfum við ekki að beita okkur fyrir öðrum vinnubrögðum hér þannig að mál sem þetta komi þó til afgreiðslu og menn segi þó já eða nei við þeim fyrirætlunum og þeirri stefnu sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt til?

Vill hæstv. ráðherra ganga (Forseti hringir.) í lið með okkur framsóknarmönnum um að þetta mál verði afgreitt á þessu þingi?