139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er leiðinlegt að hæstv. ráðherra skuli ekki geta komið upp í annað andsvar til þess a.m.k. að reyna að leiðrétta ef ég hef misskilið eitthvað. Hæstv. ráðherra lagði lykkju á leið sína hér í umræðunni til þess að benda á að vinstri grænir — ég sá að hv. þm. Þráinn Bertelsson kom í salinn stuttu eftir þessa yfirlýsingu hæstv. ráðherra — (Utanrrh.: Tveir. Hvar er stjórnarliðið?) væru ekki hér í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Við hljótum þá að draga þá ályktun að það hafi verið Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem hafi staðið í vegi fyrir því að þetta mál hafi verið afgreitt úr nefnd.

Hæstv. ráðherra lagði sérstaka áherslu á það að vinstri grænir hefðu ekkert verið hér í salnum. (Utanrrh.: Ég sagði stjórnarandstaða.) Nei, nei, að fulltrúar einungis tveggja flokka, sagði hæstv. ráðherra, (Utanrrh.: Eins.) — ja, þeir komu hlaupandi inn sveittir á enninu eftir ræðu hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) Nú, og svo eru sjálfstæðismenn mættir í salinn. (Gripið fram í.) En ég sé ekki mikið af þingmönnum Hreyfingarinnar hér en þeir hljóta að vera hér einhvers staðar í hliðarsölum, þeir eru mjög þaulsetnir eins og við þekkjum öll hér (Gripið fram í.) á vettvangi þingsins.

(Forseti (KLM): Má ég biðja um ró á fundinum.)

Sé ég að hæstv. ráðherra hlýðir félaga sínum, hæstv. forseta þingsins, Kristjáni Möller, um leið. En svo að ég klári þetta vil ég þakka fyrir það að hæstv. ráðherra skuli tala með þessum hætti um þá tillögu sem þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram. En það er bara ekki nóg. Það er ekki nóg að tala og tala fallega um hluti. Hæstv. ráðherra nefndi framkvæmdir núna sem ættu að fara af stað. Þær áttu að fara af stað í fyrra. Ég man að ríkisstjórnin hélt uppblásinn blaðamannafund um nokkur hundruð störf sem átti að skapa. Lítið af því hefur gengið eftir en nú skulum við taka mark á hæstv. ráðherra. Hann mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar um að þetta mál verði (Forseti hringir.) afgreitt hér. Ég fagna því sérstaklega og ég veit að styrkur ráðherrans er mikill innan ríkisstjórnarinnar þó að það andi (Forseti hringir.) dálítið köldu á milli vinstri grænna og hans.