139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Orðið „traust“ hefur verið mér hugleikið undanfarið. Ég held að við getum öll verið sammála um það, ef við ræðum það sem við erum sammála um, að sá trumbusláttur sem við hlustum á endurspeglar mikið vantraust, þann skort á trausti sem er gagnvart Alþingi. Mælingar segja okkur að 9% íslensku þjóðarinnar segjast treysta Alþingi. Um 25% kjósenda í Bandaríkjunum segjast treysta bandaríska þinginu, á Íslandi eru það minna en 10% sem segjast treysta íslenska þinginu.

Við leggjum fram tillögu um samvinnuráð um þjóðarsátt. Undirstaða samvinnu og samstarfs í öllum mannlegum samskiptum er traust. Þjóðarsáttin sem gerð var á sínum tíma grundvallaðist á trausti, trausti á milli stofnana og trausti á milli manna. Ég velti því fyrir mér, út frá þessum trumbuslætti og út frá þessum hugsunum um traust, hvort grundvöllur sé fyrir þá samvinnu sem við tölum hér um, hvort grundvöllur sé til þess samstarfs sem við leggjum til.

Það er ekkert traust á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og lítið traust á milli stjórnarliða. Það er ekkert traust til stjórnar og stjórnarandstöðu frá ASÍ og Samtökum atvinnulífsins sem endurspeglast m.a. í orðum formanns ASÍ í morgun. Það er ekkert traust almennings til stjórnmálamanna, opinberra stofnana, hagsmunasamtaka eins og ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, fjármálakerfisins, fjölmiðla og við getum haldið áfram.

Út frá þeim staðreyndum spyr maður: Hvað getum við gert til að byggja þetta traust upp á nýtt? Við lærum það af samskiptum við maka okkar og börn að eina leiðin til að byggja upp traust er að við gerum eins og við segjum, að fólk geti treyst því að þegar við komum fram í ræðustól Alþingis eða annars staðar, að það sem við segjum sé það sem við ætlum að gera.

Við framsóknarmenn erum ekki að flytja þessa tillögu í fyrsta skipti, þetta er í annað skipti sem við leggjum hana fram. (Utanrrh.: Hún var öðruvísi, það voru 18 atriði.) Frá því eftir hrun höfum við líka ítrekað lagt fram tillögur um skuldaleiðréttingu í ýmsu formi. Frá því að við lögðum fram efnahagstillöguna okkar um mikilvægi þess að lækka stýrivexti höfum við talað um mikilvægi þess að tryggja efnahagsstöðugleika, stöðugt verðlag. Við höfum talað um mikilvægi atvinnuskapandi framkvæmda. Við höfum lagt fram tillögur um það hvernig við getum jafnað áhættu á milli lánveitenda og lántakenda í formi breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu. Við höfum verið meðflutningsmenn að frumvarpi sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir flutti um styttingu fyrningarfrests krafna eftir gjaldþrot. Við höfum lagt geysilega mikla áherslu á að ekki sé einungis horft á skuldavanda heimilanna heldur fyrirtækjanna líka og við höfum lagt fram tillögur um það hvernig við getum skapað stöðugleika og festu í rekstri ríkisins.

Á þeim mánuði sem þetta þing hefur starfað höfum við lagt fram fjöldamargar tillögur í viðbót. Við höfum lagt fram tillögu um ráðgjafarstofu fyrir fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum. Við höfum lagt fram breytingartillögur við lög um greiðsluuppgjör á sköttum til að auðvelda þeim einyrkjum sem ekki geta lengur starfað sem einyrkjar og eru komnir á atvinnuleysisskrá að gera upp skuldir sínar. Við höfum komið fram með tillögur um ívilnanir til nýsköpunarfyrirtækja, spurst fyrir um það hvað sé að frétta af þessum blessuðu neysluviðmiðum sem ríkisstjórnin er búin að lofa lengi, og svo er það þessi stóra tillaga okkar um samvinnuráð um þjóðarsátt.

Hún grundvallast á hugmyndafræði okkar um að tryggja raunverulega verðmætasköpun þar sem fólk leggur saman þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að ná ákveðnum sameiginlegum markmiðum, það er það sem samvinnuráðið á að gera. Þeir einstaklingar sem koma þar saman sem fulltrúar stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila munu leggja saman í púkk þekkingu sína, reynslu og hagsmuni til að leita leiða í anda þjóðarsáttarinnar, sem gerð var á sínum tíma, til að styrkja atvinnuvegi landsins og efnahag þjóðarinnar til frambúðar.

Ef ég fæ aðeins að minna þá þingmenn sem sitja hér í þingsal, þeir eru nánast úr öllum flokkum, á það hvað samvinna stendur fyrir: Samvinna stendur ekki fyrir það að við séum alltaf sammála um allt, það er ekki það sem orðið samvinna felur í sér. Það felur hins vegar í sér að fólk getur náð meiri árangri með því að vinna saman en sem einstaklingar. Samvinnan og samvinnuhugsjónin grundvallast líka á þeirri trú að leiðin til að tryggja sanngirni í samfélaginu sé að dreifa valdi, fá fleiri að og án tillits til auðs, stéttar, kyns eða hörundslitar. Hún byggist líka á því að hvetja til reksturs samvinnufélaga og annarra sameignarfélaga sem hafa hagsmuni meðlima að leiðarljósi frekar en það eitt að hámarka hagnað þar sem viðurkennt er að styrkur hinna smáu liggur í samvinnu.

Það er það sem ég tel að þurfi að vera undirliggjandi hvað varðar vinnuna varðandi samvinnuráðið og hvað varðar vinnuna hér á þinginu, að við horfum til þess hvernig við getum hjálpað einstaklingum að hjálpa sér sjálfir, að við horfumst í augu við það að við berum hvert og eitt ábyrgð á þeirri stöðu sem við erum í í dag og við berum líka ábyrgð á því að koma okkur út úr þeirri stöðu. Við berum ábyrgð á því að tryggja lýðræðið í landinu, einn maður eitt atkvæði, það sé jafnrétti og það sé sanngirni og út frá því samstarf. Það hefur verið grundvallarhugsun okkar framsóknarmanna á bak við skuldaleiðréttinguna, þ.e. jafnrétti og sanngirni.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sagði, þegar hann gerði athugasemdir við orðaval mitt um forsendurbest, að allir hefðu orðið fyrir forsendubrestinum. Eiga þá ekki allir að fá leiðréttingu? Er það ekki það sem jafnrétti og sanngirni felur í sér? Ef allir hafa orðið fyrir forsendubresti eiga allir að fá leiðréttingu. Í staðinn fyrir að byggja undir einstaklingshyggjuna, að byggja undir það að hver og einn hugsi fyrst og fremst um sjálfan sig, að enginn annar megi fá meira, verðum við að finna leið til að vinna saman, hvernig við getum öll borið umhyggju fyrir samfélaginu. Það er nefnilega þannig að við búum öll hér á Íslandi, við störfum öll á Íslandi, og hagsmunir okkar eru sameiginlegir, að tryggja að það gangi vel á Íslandi.

Ég vil hvetja okkur öll sem hér sitjum til að hafa í huga að falleg orð eru nóg, orð eru alls ekki nóg. Þó að komið sé hingað upp í ræðustól og talað um að þetta sé ágæt tillaga hlýtur næsta skrefið að vera að fara út í framkvæmdir.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir talaði um það í ræðu sinni að henni fyndist stundum leitt að sjá að góðar tillögur, hvort sem þær koma frá þingmönnum stjórnarandstöðu eða stjórnar, fái ekki að fara í gegn á þinginu heldur þurfi að umorða þær og ráðherra þurfi að leggja þær fram. Þetta sáum við t.d. í frumvarpi sem hv. þingmaður var 1. flutningsmaður að, um fyrningarfrest kröfuréttinda. Ekki var hægt að setja það mál í nefnd og láta nefndina breyta frumvarpinu í samræmi við tillögur ráðherrans heldur varð ráðherrann sjálfur að koma með sitt eigið frumvarp. Þessu þurfum við svo sannarlega að breyta.

Eins og margir hafa bent á eru orð til margs og orð þurfa oft að koma fyrst. Hér eru orð komin á blað. Ég vona að þingmenn taki höndum saman og samþykki að stofna samvinnuráð um þjóðarsátt.