139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[16:50]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Undir taktföstum trumbuslætti og vaxandi mótmælaþunga í samfélaginu ræðum við tillögu okkar framsóknarmanna til þingsályktunar um samvinnuráð um þjóðarsátt. Það er alveg ljóst þó að einhver efi sé hjá hæstv. forsætisráðherra að fólkið sem mótmælir hér er að mótmæla óréttlæti, það er að mótmæla vanmætti stjórnvalda, stjórnmálamanna, til að grípa til einhverra aðgerða. Það er að mótmæla aðgerðaleysinu, það er að mótmæla atvinnuleysi og auðvitað beinast mótmælin fyrst og fremst gegn ríkisstjórninni enda fer hún með framkvæmdarvaldið í landinu.

Það kom hér fram í dag, við vorum að ræða hvort við værum stödd á degi múrmeldýrsins. Það væri óskandi að svo væri því að þá gætum við lært smátt og smátt af þeim mistökum sem við erum að gera og að einn daginn mundum við grípa til þeirra aðgerða sem væru réttar. Tilfinning mín er sú að við séum ekki að læra, hvorki af eigin reynslu tveggja ára hruns né af reynslu annarra þjóða sem hafa gengið í gegnum kreppur, hvorki Færeyinga né Finna sem við þó ræddum hér talsvert fyrir einu og hálfu ári að við yrðum að forðast að fara í fótspor þeirra og gætum lært af reynslu þeirra. Ég hef talað talsvert um það að við séum á ári biðstöðunnar, það er kannski orðið eitt og hálft ár, í aðgerðum sem snerta leiðréttingar á skuldavanda heimila og í atvinnumálum.

Umræðan um þessi mál hefur því miður verið með þeim hætti að þau hafa ekki notið sannmælis í samfélaginu. Það er verið að leggja fram fullt af góðum málum á þinginu. Og það er auðvitað sláandi sem hæstv. utanríkisráðherra benti á að þegar sú umræða sem hér fer fram er jákvæð og þingmenn úr öðrum flokkum sem hafa tekið þátt í henni hafa tekið undir margar af tillögunum, þá skuli enginn fjölmiðill vera hér til að fjalla um málið. Það er auðvitað sláandi.

Það var líka sláandi að hlusta á Ríkisútvarp allra landsmanna flytja fréttir í hádeginu í dag og hafa það eftir forustumanni ASÍ, Gylfa Arinbjarnarsyni, að sundurlyndi stjórnmálaflokka valdi því helst að atvinnumálin séu með þeim hætti sem þau eru í dag og að launþegar og atvinnurekendur sjái ekki sín mál ganga fram. Ég held að hann hljóti að hafa mismælt sig og hafi verið að meina stjórnarflokkana því að það er sannarlega sundurlyndi milli þeirra í atvinnumálum. Það vitum við og við getum tekið nokkur dæmi og kannski þarf ekki að nefna svo mörg.

Hæstv. utanríkisráðherra nefndi tvö hér áðan og hann fór með rangt mál. Hann sagði til að mynda að það væru engar opinberar fyrirstöður lengur varðandi uppbygginguna í Helguvík. Síðast á mánudaginn var ég á upplýsingafundi þess efnis að það eru nákvæmlega opinberar fyrirstöður í því máli. Nú er hæstv. umhverfisráðherra komin í salinn og það er kannski vert að varpa spurningu til hæstv. ráðherra. Aðalskipulag Reykjanesbæjar sem þarf staðfestingu umhverfisráðherra liggur inni í ráðuneytinu. Ef það liggur þar í 14 mánuði er það 14 mánaða stöðvun. Ef það verður afgreitt í þessari viku verður þetta ekki mikil fyrirstaða. En það er þar og það þarf að afgreiða það áður en lengra er haldið. Eins þarf Orkustofnun, sem er auðvitað opinbert stjórnvald, að gefa út virkjanaleyfi en hefur ekki gert enn. Það eru því klárlega opinberar fyrirstöður fyrir uppbyggingunni í Helguvík enn.

Jafnframt nefndi hæstv. utanríkisráðherra að uppbyggingin á Búðarhálsi væri að fara í gang og það væri jákvætt fyrir Suðurland þó að þar væri ekki sérstaklega mikið atvinnuleysi eða 5%. Á Árborgarsvæðinu, í sveitarfélaginu Árborg er mun meira atvinnuleysi því að þar var byggingarverktakageirinn mjög sterkur, þar er gríðarlegt atvinnuleysi og því miður er það líka þannig að þar er talsvert vantalið atvinnuleysi. Margir af þeim sem unnu í þessum geira vinna núna erlendis en fjölskyldurnar búa hér enn. Þetta fólk er að gefast upp, það er að velta því fyrir sér að flytja út með fjölskyldurnar og hætta að greiða, það hefur staðið í skilum hingað til. Og það er vegna þess að það eru ekki nægileg verkefni. Auðvitað getum við ekki farið fram á að það séu eins mörg verkefni í þessum geira og þegar best lét en þetta er svona, þetta er staðreyndin, það eru enn þá opinberar fyrirstöður.

Það hefur talsvert verið talað um að það skorti á skýra sýn ríkisstjórnarinnar og menn geta hreinlega spurt sig hver sé stefna ríkisstjórnarinnar í mörgum málum. Þar sem ég var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðustu tvær vikur hefur utanríkisstefna landsins komið talsvert upp í huga minn og hver er hún? Það væri áhugavert að vita það, það er afar óljóst hvert við stefnum.

Síðustu daga var hér Norðurlandaráðsþing. Ég gat ekki séð það á dagskrá þingsins að það væri haldið á Íslandi undir forustu Íslendinga, undir forustu samfylkingarformanns Norðurlandaráðs, hv. þm. Helga Hjörvars. Ég gat ekki séð hin íslensku áhrif þar, ég gat ekki séð þau. Hver er stefna ríkisvaldsins í skuldaleiðréttingum heimila? Eigum við að bíða eftir því þangað til í næstu viku að fá eitthvað um það að vita eða þurfum við nokkuð að bíða eftir því? Hæstv. forsætisráðherra nefndi það hér að ef samningar næðust við alla og allir væru sammála væri hægt að fara þá leið. Vitum við það ekki fyrir fram að bankarnir munu ekki vilja það? Vitum við það ekki fyrir fram að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna vilja það ekki? Þurfum við nokkuð að bíða eftir þessari skýrslu fram yfir helgi? Var ekki hægt að segja þetta strax í dag eða óttaðist ráðherra að tunnumótmælin mundu þá aukast?

Hver er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar? Ég held að það sé virkilega kominn tími til þess að við förum að ræða hvert við stefnum. Við erum að reyna með þessari tillögu um samvinnuráð um þjóðarsátt að fá menn að borðinu til að ræða grundvallaratriði algjörlega opið. Mér fannst í umræðunni fyrr í dag í fyrirspurnatímanum að hæstv. forsætisráðherra væri komin í samkeppni, svokallaða typpakeppni um það hver væri með flestar tillögur, sagði ríkisstjórnina vera með 50 tillögur, Sjálfstæðisflokkurinn væri með 41 tillögu og hér erum við þó bara með 10. En kannski væri mikilvægast af öllu að byrja á einni tillögu og hætta að tala og tala um allar tillögurnar, taka eina sem virkar og fara af stað með hana.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom hér upp og varaði við því sem er að gerast í Bandaríkjunum og er sambærilegt við það sem gerist hér, um samdráttinn mikla og vítahringinn þar sem neyslustigið fer niður, samdrátturinn eykst, atvinnuleysið eykst og neyslan minnkar. Við höfum verið á þeirri leið með stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stefnu núverandi ríkisstjórnar að draga saman, skera niður og ætlast til að ná þannig samfélaginu í gang með hækkandi sköttum. Það er útilokuð leið, við þurfum að fara þá leið að skapa hér réttlæti. Það gerum við með einhverjum almennum aðgerðum í skuldamálum heimila, við verðum að fara að setja mun meiri kraft í atvinnumálin þannig að við förum að skapa eitthvað af þeim 20–22 þúsund störfum sem hér hafa tapast. Slíkt er hægt að gera í mörgum atvinnugreinum. Það á ekki að einskorða umræðuna við stóriðju eða annað, við þurfum að gera það á miklu fjölbreyttari hátt.

Við þurfum að fara í niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu af skynsemi. Þetta á að snúast um að auka hagvöxt, stækka kökuna. Það gengur ekki út á að auka skatta, við eigum frekar að draga úr þeim. Við verðum að skapa fleiri atvinnutækifæri og fyrirtækin sem fyrir eru í landinu eru auðveldust til þess að skapa fleiri störf. Það þýðir ekki að tala hér bara um einhverja nýsköpun sem eitthvert hókus pókus orð. Það er mjög erfitt að skapa störf. Sem betur fer er grundvöllur fyrir því á Íslandi í dag en auðveldasti grundvöllurinn er að nýta þau fyrirtæki sem fyrir eru.

Í tillögum okkar framsóknarmanna, sem eru í 10 liðum, eru auðvitað þó nokkur atriði sem hægt væri að fara yfir í lengra máli. Aðrir hafa þó farið inn á það og ég hugsa að ég láti hér við sitja. Ég fagna því að umræðan um þessa þingsályktunartillögu okkar er jákvæð. Mér finnst dapurlegt að fjölmiðlar skuli ekki vera virkari hér til að fjalla um þetta. Ég vona að þeir þingmenn sem eiga eftir að tala muni jafnframt taka undir tillögurnar með sama hætti og aðrir hafa gert og ég vonast til þess að við náum saman um að koma að minnsta kosti eins og einu þjóðþrifaverki í gang, einhverju einu (Forseti hringir.) atvinnutækifæri sem sýnir að við eigum von, því að tækifærin eru sannarlega til staðar.