139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að koma upp eftir svona þrumandi ræðu um samvinnuráð um þjóðarsátt. Engu að síður ætla ég að fara aðeins yfir það efnislega sem við erum að leggja til því að ég náði ekki alveg þeim kafla hjá hv. ræðumanni sem hélt annars ágæta ræðu. Ég er að mörgu leyti mjög sammála því sem hann sagði, við skulum hafa það á hreinu.

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þingsályktunartillaga um samvinnuráð um þjóðarsátt. Hér er í raun verið að flytja aftur tillögur sem við höfum áður lagt fram í þinginu og kynnt. Því miður hafa þær ekki komist á dagskrá fyrr og eftir því sem manni virðist hafa stjórnvöld ekki sýnt þeim mikinn áhuga.

Samvinnuráð um þjóðarsátt gengur út á það, eins og heitið segir, að koma á fót samvinnuráði til að fjalla um 10 atriði sem við skilgreinum en að sjálfsögðu er ýmislegt annað undir og allt opið í því. En þetta er alvörusamvinnuráð, þ.e. að aðilar komi saman, leggi spilin á borðið, sínar hugmyndir, og sammælist um forgangsröðun á verkefnum sem þarf að leysa. Þetta er ekki eitthvert sýndarplagg þar sem kallað er í menn eftir þörfum eða hópa þegar kúrsinn er orðinn það slæmur eða skipið að sigla í strand. Þetta er ekki tillaga sem er runnin undan rifjum Alþýðusambandsins eða Samtaka atvinnulífsins þaðan sem mér sýnist nýjasta samráðstillaga forsætisráðherra vera ættuð. Þetta er heiðarleg nálgun á það að koma af stað umræðu um það sem er mikilvægast að okkar mati.

Það þarf engan að undra að þeir sem leggja þetta mál fram séu hugsi yfir því hvernig tekið er á móti þessum tillögum, hvernig tekið er við þeim. Reynslan kennir okkur það og sýnir okkur að það samráð sem við höfum haft hingað til við stjórnvöld hefur verið í algeru skötulíki. Það er kallað til stjórnarandstöðunnar þegar allt er komið í strand, þegar á reynir, þegar mótmælendur hafa staðið fyrir utan Alþingi eins og var 4. október, þegar ljóst er að ekki er hægt að koma stórum málum eins og Icesave-málinu fyrir vind nema með víðtækri aðstoð allra stjórnmálaflokka. Og það var ekki vegna þess að stjórnvöld, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, vildi það heldur voru það erlendir aðilar, gagnaðilar okkar, sem kröfðust þess. Það var líka fólkið í landinu sem krafðist þess að farið yrði út í aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Það er líka Alþýðusamband Íslands sem nú virðist krefjast þess að einhvers konar samráð skuli sett á fót.

Hvers vegna skyldi Alþýðusamband Íslands beita sér fyrir því núna? Getur verið að það ágæta batterí treysti sér ekki, frú forseti, til að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í komandi kjarasamningum? Getur verið að sú sé ástæðan? Að nú eigi að draga stjórnvöld, draga stjórnmálaflokkana, til ábyrgðar? Maður veltir því fyrir sér þegar maður les viðtöl við forseta ASÍ þar sem hann gefur í skyn að það séu átök milli stjórnmálamanna sem komi í veg fyrir frið á vinnumarkaði. Það er með ólíkindum að heyra slíkt frá aðilum sem eiga að sýna ábyrgð í samfélaginu þegar við höfum hlustað á að það eru þeir sem einna helst leggjast gegn því að farið sé í almennar aðgerðir til að bjarga heimilum og fjölskyldum í landinu, beita fyrir sig lífeyrissjóðunum sem þessir sömu aðilar stjórna og ráða og hafa gert í mörg ár, tapað hundruðum milljarða á fjárfestingum sem ekki hafa skilað sér. Þetta eru fulltrúar alþýðunnar og maður spyr: Hvaða alþýðu? Og það má enginn misskilja mig. Ég held að hin samtökin á vinnumarkaðinum séu lítið skárri, Samtök atvinnulífsins. En þau hafa þó haft vit á því að vera ekki að reyna að koma ábyrgðinni yfir á aðra líkt og forusta Alþýðusambandsins er að gera.

Frú forseti. Það sem kom fram áðan sýnir hvernig þessi samtök eru í eðli sínu. Þegar lögð er fram á Alþingi þingsályktunartillaga og henni vísað til nefndar og þessi samtök, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins, sjá ekki ástæðu til að svara þeim skriflega, segja álit sitt skriflega, þá er eitthvað mikið að. Til hvers eru þessi samtök? Um hvað fjalla þau? Eru þetta pólitísk samtök sem hanga á ríkisstjórninni? Það sýnist mér.

Frú forseti. Ég hef eytt nokkrum tíma í að ræða Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins og það er full ástæða til að eyða heilum degi í að ræða það, tengsl þeirra innbyrðis, við lífeyrissjóðina og við annað. Ég held að við ættum að hvetja til þess að þar verði hverjum koppi velt við til að kanna hvað undir honum er.

Boðað var til samráðsfundar eins og ég hef áður sagt í gær í Stjórnarráðinu. Þar mættu fulltrúar stjórnarandstöðunnar og hlupu ekki á dyr líkt og fjölmiðlar vilja halda fram og hæstv. utanríkisráðherra virðist hafa ákveðið að trúa. Þarna sátu fulltrúar stjórnarandstöðunnar og reifuðu stöðu mála við tvo ráðherra ríkisstjórnarinnar. Á þessum fundi voru lögð fram tvö blöð og verður að líta svo á að það hafi verið framlag stjórnarflokkanna inn í þessa umræðu til að opna hana. En þegar maður les í gegnum það sem lagt er til á þessum blöðum hljótum við, frú forseti, að velta því fyrir okkur til hvers við séum með ríkisstjórn í landinu. Hér er lagt til að haft sé samráð um það að halda áfram verkefninu Allir vinna. Hvers vegna í ósköpunum var þetta ekki ákveðið í morgun yfir kaffibolla af ráðherrum ríkisstjórnarinnar að halda þessu áfram, verkefni sem allir hafa stutt og eru sáttir við?

Sá listi sem hér er lagður fram er einkennandi fyrir hið svokallaða samráð og samstarf sem á að hafa uppi. Þetta er almennt orðað plagg, eða almennt orðaðar hugmyndir, sem eiga að vera verkefni hverrar ríkisstjórnar og verkefni sem ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnar eiga að vera að leysa. En það er þannig að þegar ekki er hægt að leysa þessi mál innan stjórnarmeirihlutans er komið til stjórnarandstöðunnar og við kölluð til. Stjórnarandstaðan á að koma núna og leysa úr vandanum fyrir ríkisstjórnina og líka leysa úr vandanum fyrir aðila vinnumarkaðarins því að þeir treysta sér ekki til að gæta þeirra hagsmuna sem þeir eru kosnir til og eiga að gæta. Frú forseti, þetta eru skrýtnir tímar sem við lifum.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kom inn á málefni í ræðu sinni og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson einnig þar sem í raun var verið að segja frá því að ef ekkert væri að gert væri hætta á seinni bylgjunni í kreppunni. Það verður að bregðast við strax. Það verður að ganga þannig frá málum að atvinnulífið geti vaxið, heimilin geti haft fjármuni til að kaupa þjónustu, vörur af atvinnulífinu, þannig að hringrásin fari á rétt ról og hún fari úr bakkgírnum í áframgírinn ef þannig má orða það.

Frú forseti. Ef það er þannig að það þurfi styrkari stjórn eða sterkara samráð en orðið hefur er eðlilegt að kalla til þess þá stjórnmálaflokka sem eru á Alþingi, að þeir fái þá umboð, verkefni, völd og afl til að koma að því máli. Þannig mundi myndast breiður meiri hluti fyrir þeim verkefnum sem menn kæmu sér saman um, það er alveg ljóst.

Auðvitað eru misjafnar áherslur eins og í atvinnumálum, eins og hv. þm. Lilja Mósesdóttir benti réttilega á. Áherslur eru ólíkar og það er ekkert athugavert við það. En það eiga ekki og geta ekki verið rök fyrir því að hitt nái ekki fram að ganga, almenn leiðrétting, þ.e. að við náum saman um að koma hlutunum áfram. Ef það eru slík mál sem standa út af verðum við einfaldlega að láta þau í hendur Alþingis til að ákveða hverju sinni en við verðum að einbeita okkur að þeim málum sem mestu skipta.

Frú forseti. Það samráð sem nú er boðað til — ég veit ekki hvort á að kalla þetta þriðja í samráði eða eitthvað slíkt — er eitthvað sem sá er hér stendur setur stórt spurningarmerki við í ljósi reynslunnar. Það getur ekki verið að stjórnarandstaðan eigi að hafa það hlutverk að koma stjórnvöldum til bjargar þegar þau þurfa á því að halda. Ef stjórnvöld vilja hins vegar ræða málin á jafnréttisgrunni og mynda til þess sterkt afl sem allir koma að þá skorumst við ekki undan.