139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma inn á umræðu sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hóf í innleggi sínu. Það var um þetta sem Bandaríkjamenn kalla „eftiráfallið“ eða „aftershock“ sem þeir búast við að gerist í nóvember. En ástæðan fyrir þessu eftiráfalli er sú að ef Bandaríkjastjórn bregst ekki við og kemur raunhagkerfinu til hjálpar munu bankarnir hrynja vegna þess að fyrirtækin og heimilin geta ekki lengur staðið undir skuldum sínum. Ég óttast að við gætum líka sé einhvers konar eftiráfall eftir bankahrunið ef við afnemum gjaldeyrishöftin allt of hratt. Það hefur komið tilkynning frá seðlabankastjóra um að það eigi að gera í mars en ekki hefur verið tilkynnt nákvæmlega hvernig á að gera það. Ég er að velta því fyrir mér, af því að það kom ekki fram í þessari þingsályktunartillögu framsóknarmanna, hvaða leið Framsóknarflokkurinn leggur til að verði farin varðandi afnám gjaldeyrishaftanna.

Eru framsóknarmenn tilbúnir til að styðja hugmyndir um að við afnemum þau á næsta ári með því að leggja mjög háan skatt á útstreymi fjármagns og náum þá því markmiði strax á næsta ári að afnema höftin í stað þess að fara þá leið sem mér sýnist Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vilja að afnema þá smám saman næstu þrjú til fimm árin? Þessi skattlagning er ekki í samræmi við EES-samninginn en ekki heldur þau boð og bönn sem við höfum núna sem gjaldeyrishöft. Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju þeir sem vilja aðild að Evrópusambandinu styðja ekki þessa skattlagningarhugmynd varðandi afnám gjaldeyrishaftanna.