139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi það sem hv. þingmaður nefnir raunhagkerfið, að koma því af stað eða koma því til hjálpar, sem nú er það sem blasir við Bandaríkjamönnum eins og hún nefndi. Það er vitanlega það sem við erum að ræða þegar við tölum um að koma heimilunum af stað, koma þeim á skrið sem aðilum í þessu hagkerfi, og einnig að fyrirtækin, lítil, meðalstór og smá, geti ráðið til sín fólk þannig að neysla og fjárfesting og annað fari af stað. Ég held að við séum alveg sammála um það að við þurfum að gera allt til að koma í veg fyrir að slíkt dragist á langinn.

Varðandi spurninguna um gjaldeyrishöftin verð ég alveg að vera hreinskilinn við hv. þingmenn um það að ég tel að við þurfum að afnema þau mjög skarpt þegar að því kemur. Ég held að skoða eigi það mjög vandlega, og útiloka það alls ekki, að styðja þá hugmynd að þetta verði skattlagt býsna kröftuglega til að hægja á því að útstreymi verði. Maður skyldi ætla að það verði alla vega markmiðið að hluta til. En ég held að við verðum sem allra fyrst að skoða þær hugmyndir sem eru uppi því það gengur ekki að seðlabankastjóri eða einhver annar komi reglulega fram og gefi vísbendingar um að kannski eigi að afnema gjaldeyrishöftin, kannski ekki. Við fáum alltaf óljósar vísbendingar, eins og gerðist síðast í september, frá Seðlabankanum um hvað standi til að gera.

Ég hefði haldið að seðlabankastjóri og stjórnin ætti að sitja aðeins á strák sínu og reyna að ákveða í samráði við sem flesta hvernig á að gera þetta og koma þá með tilkynninguna um það hvenær sé best að afnema þessi höft. En ég útiloka alls ekki þessa leið hjá hv. þingmanni.