139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:25]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að alla vega hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson tekur undir þá leið að skattleggja mjög hátt útstreymi þegar við afnemum gjaldeyrishöftin. Ég held að það sé eina leiðin til að losna við gjaldeyrishöftin sem fyrst og það er líka ákveðin ógn varðandi það útstreymi sem er væntanlegt eftir að við afnemum gjaldeyrishöftin. Þeir sem vilja út með fjármagnið geta þá alltaf átt von á því að við innleiðum einn, tveir og þrír skatt á útstreymið ef þeir ætla að fara að flytja út óheyrilega háar upphæðir.

Ég er sammála því sem kemur fram í þingsályktunartillögu Framsóknarflokksins að ekki eigi að nota gjaldeyrisvarasjóðinn til að afnema gjaldeyrishöftin. Það á að nota þennan gjaldeyrisvarasjóð til að aðstoða fyrirtæki eins og Landsvirkjun við að endurfjármagna lánin sín. Við vitum að Landsvirkjun mun þurfa erlent fjármagn í lok árs 2012 til að endurfjármagna sig (Utanrrh.: Hún er búin að því.) — ég fagna því að hér koma fram upplýsingar frá hæstv. utanríkisráðherra um að Landsvirkjun hafi nú þegar endurfjármagnað sig. Þær upplýsingar komu ekki fram á fundi iðnaðarnefndar með forstjóra Landsvirkjunar fyrir um það bil tveimur vikum.

Hvað varðar almenna leiðréttingu skulda til að laga stöðu raunhagkerfisins þá er hún mjög mikilvæg og ég vil bara ítreka að með því að fara út í almenna leiðréttingu erum við að tryggja endurheimtur lífeyrissjóðanna og það að lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að skerða lífeyri sinn. Margir halda að ekki sé hægt að fara út í almenna leiðréttingu vegna þess að þá þurfi þeir að skerða lífeyrinn.