139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:30]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér fyrir utan, á Austurvelli, þann ágæta dag 4. nóvember 2010 er spilað á eina tegund hljóðfæris, trumbur, en í þjóðarsinfóníunni heyrist reyndar í fleiri hljóðfærum. Því er mjög mikilvægt fyrir alþingismenn að dvelja ekki einvörðungu við Austurvöll heldur fara um allt land, hringinn í kringum landið og heyra ríkulega í kjósendum sínum og gott betur, öllu fólkinu í landinu, jafnt innan fyrirtækja, stofnana og jafnvel heimila ef því verður við komið.

Þingmenn hafa á undanförnum dögum farið í kjördæmi sín og hlustað á fólk, talað líka en hlustað vonandi jafnmikið. Skilaboðin eru að meginuppistöðu ein: Þingmenn fari að vinna saman. Skilaboðin eru reyndar margvísleg. Á Vopnafirði segja menn: Hættið að tala um þessa kreppu, hér er nánast þensla enn þá, hér vantar fólk, hér vantar húsnæði. Skilaboðin eru svipuð á Þórshöfn. Hér vantar fólk, hér vantar húsnæði. Hljóðfærin í þjóðarsinfóníunni hljóma því margvíslega og við eigum að hlusta eftir þeim öllum og vera ekki eintóna í umræðunni.

Því er þetta sagt í pontu Alþingis að ég fagna mjög þeirri tillögu sem hér kemur fram frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég held að hún sé mjög í anda þess sem breiður hópur fólks hringinn í kringum landið vill að þingmenn í öllum flokkum starfi eftir. Það er í sjálfu sér mjög einkennilegt að koma inn á þing og fylgjast í þaula með störfum Alþingis. Þau eru margvísleg, þau fara fram á margvíslegum vígstöðvum — á meðal kjósenda, í nefndum, sem vel að merkja er kannski veigamesta starf Alþingis og ætti að auka að mun að burðum og innihaldi, og svo í þingsal. En munurinn á milli starfa í þingsal og þeirra starfa sem blasa við í þingnefndum er oft og tíðum svo mikill að líkja má við einhvers konar pólitíska geðhvarfasýki, schizophreniu, vegna þess að maður þekkir oft ekki sama fólkið fyrir störf sín í þingnefndum og þegar það kemur svo upp í pontu og fer í gömlu, góðu pólitísku stellingarnar til þess eins að hrósa sínu fólki en tala niður allt það sem frá öðrum kemur. Þessu verður að linna.

Nú er það náttúrlega svo að menn hafa misjafna pólitíska sýn á hlutina og það verður aldrei þannig að allir geti talað einum rómi í pólitík á Íslandi enda vilja sumir hampa útgerðarmönnum fremur en fiskverkendum, aðrir vilja fremur hampa framleiðendum en neytendum, sumir vilja fremur hampa lánveitendum en lántakendum og enn aðrir vilja fremur hampa verðtryggjendum en þeim verðtryggðu og svona verður þetta jafnvel áfram. Fólk vill ýmist halda í það sem sérhagsmunahópar hafa eða hampa sjónarmiðum þeirra sem tala fyrir almannahagsmunum. Þannig verður breiða myndin í pólitík væntanlega áfram. En niðurstaðan er engu að síður sú að að meginhluta eru þingmenn ágætlega sammála um mörg og jafnvel meiri hluta þeirra verkefna sem blasa við hverju sinni. Þetta kemur rækilega fram í þingnefndum, a.m.k. í tilviki þess sem hér talar og á sæti í fjárlaganefnd, iðnaðarnefnd og nú samgöngunefnd og þar áður í heilbrigðisnefnd. Þar hefur að meginhluta verið talað svo að segja einum rómi og starfið hefur verið mjög skipulagt og árangursríkt þar sem menn tala sig gjarnan niður að niðurstöðu, takast vissulega oft á um hlutina en komast að niðurstöðu.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að starf þingnefnda verði aukið, jafnvel á kostnað þess rifrildis sem blasir við alþjóð í þingsölum. Ef til vill má snúa útsendingum fjölmiðla við og sýna fremur starfið innan þingnefnda en ekki eilíflega úr þingsal þar sem kannski versti hluti stjórnmálanna birtist landsmönnum en ekki sá besti sem blasir við í þingnefndum.

Frú forseti. Ég vildi nefna þetta í ljósi þeirrar þingsályktunartillögu sem hér blasir við okkur í 10 liðum og kemur inn á margt. Ég get tekið undir mjög margt. Það er ef til vill eitt atriði sem ég er ekki endilega sammála og það er almenn niðurfærsla á skuldum landsmanna. Sú umræða hefur oft farið fram í þingsölum áður en í meginatriðum er ég sammála öllu hinu.

Hafandi sagt þetta velti ég fyrir mér: Hvers vegna dvelja þingmenn yfirleitt alltaf við það eitt sem þeir eru ósammála um í stað þess að tala meira um það sem þeir eru sammála um og dvelja lengur við það, jafnt í þingsal sem á fundum meðal almennings og annars staðar þar sem þeir hitta hverjir aðra? Hvers vegna þarf svo að vera að jafnágæt tillaga og hér er lögð fram verði e.t.v. felld af meiri hluta þingheims vegna þess að einhverjir kunna að vera í andstöðu við einn lið hennar og dvelja lengur við hann en meginhluta tillögunnar sem fjallar um afskaplega brýn verkefni að mínu viti? Vil ég nú dvelja við nokkur þeirra.

Lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Stýrivextir Seðlabankans eru nú í sögulegu lágmarki, hafa aldrei verið lægri og eru komnir niður í fimm og hálfan punkt sem er vel en þurfa vissulega að fara neðar. Ég tel að við þurfum að ræða um þá framtíð sem blasir við okkur í þeim efnum og að mínu viti er sú framtíð bundin við annan gjaldmiðil. Við erum bundin á klafa krónunnar sem vinnur ekki með okkur heldur á móti og sumpart má segja um heimilin í landinu að þau séu þrælar krónunnar og þeirrar verðtryggingar sem er í reynd hækja krónunnar og heldur henni uppi til þess að hún hafi einhvern trúverðugleika. Framtíðin í stýrivaxtalækkun hlýtur að felast í því að hér verði til staðar gjaldmiðill sem fleiri en örfáir Íslendingar hafi trú á og þjóni öllum landsmönnum og þjóni samningum og samstarfi ríkja á milli en ekki örfáum sérhagsmunum heima á Íslandi.

Ég vil líka dvelja við atvinnuskapandi framkvæmdir. Ég er mjög hlynntur þeim og tel að við höfum ekki notað allar leiðir til að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Margt í málflutningi þeirra sem helst tala fyrir aukinni atvinnusköpun og gagnrýna ríkisstjórnina á ekkert skylt við sannleikann í málinu. Ég bendi t.d. á verkefnið í Helguvík. Þar standa stjórnvöld ekki í vegi neins, það strandar á skipulagsmálum Grindvíkinga og Reyknesinga ásamt því að orkusamningar hiksta og jafnvel orkumagnið sömuleiðis. Svipað er ástatt um málefni uppbyggingar orkufreks iðnaðar eða einhvers annars í krafti þeirrar orku sem blundar undir niðri fyrir norðaustan.

Það má tala um enn frekari verkefni og ég er tilbúinn í samstarf á þeim vettvangi. Ég nefni auknar aflaheimildir sem ég hef ítrekað nefnt í þessum sal og tel að feli enga áhættu í sér fyrir fiskstofna Íslands svo sem margir sérfræðingar hafa tekið undir, bæði hér heima og erlendis. Ég hef líka talað fyrir því að menn skoði ofanflóðasjóð, sem á um 8 milljarða nú um stundir, og ráðist í lífsnauðsynleg verkefni. Ég spyr jafnframt: Hvers vegna er það svo að þegar menn ræða ýmsar svona hugmyndir, eins og t.d. aukinn kvóta, af hverju reynir þá ekki — og þetta á við um margar hugmyndir á þingi — á hinn raunverulega meiri hluta Alþingis? Af hverju er hann alltaf knúinn áfram, ekki af löggjafanum heldur framkvæmdarvaldinu? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)