139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ljómandi góða ræðu sem ég var sammála að mestu leyti en vil spyrja hann nánar út í eitt atriði, ég er alveg sammála punktinum en mundi gjarnan vilja fá frekari vangaveltur út frá honum. Það var þetta með samanburðinn á störfum í þingsal og umræðum í nefndum og svo þá kenningu hv. þingmanns að það sé meiri hluti í þinginu fyrir flestum góðum málum. Ég held að það sé nefnilega alveg hárrétt hjá honum. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að opna nefndafundina með þeim hætti sem hv. þingmaður velti fyrir sér vegna þess að hættan er einfaldlega sú að umræðan þar mundi þróast á sama hátt og hér. En má ekki leysa vandann varðandi að hinn raunverulegi meiri hluti í þinginu nái ekki fram að ganga með þjóðstjórn? Þá værum við komin í þá stöðu að allir flokkar í þinginu væru með sína fulltrúa í stjórninni og þá réði einfaldlega meiri hlutinn í þinginu í hverjum málum. Þannig gætum við náð fram mörgum góðum málum á skömmum tíma.