139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kynnti áhugaverðar hugmyndir og má svo sem taka undir þær en ég held að í raun séu allar þær reglur til staðar sem þarf til að þingið fái notið sín. Samkvæmt reglunum, hvort sem við lítum á þingsköp eða stjórnarskrá og allt þar á milli, hefur þingið valdið. En í raun hefur það ekki tekið sér það vald, ekki nýtt það. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort ekki þurfi þá pólitísku breytingu að allir komi að ríkisstjórninni til að þingið taki það vald sem það raunverulega hefur samkvæmt stjórnarskrá.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt í leiðinni. Fyrir nokkrum vikum gaf hann ríkisstjórninni frest, ég man ekki hvort hann nefndi ákveðinn tíma, það voru um tvær vikur minnir mig. Er ekki sá frestur liðinn? Ef ekki, hversu langan frest til viðbótar hefur ríkisstjórnin til að taka á atvinnumálunum?