139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttir fyrir þessa ábendingu. Vissulega er það svo að Íslendingar hafa í gegnum tíðina notið erlendrar aðstoðar á margvíslegan hátt, ekki síst með því sækja sitt nám í miklum mæli til útlanda en líka frá erlendum sérfræðingum. Ég nefni mikilvægi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hefur hjálpað okkur að miklu leyti og ber ekki að draga úr því þó að sú aðstoð geti vissulega þótt umdeild. En með aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var þó komið skikki á þau mál sem voru í mjög miklu ólagi í miðju hruninu og sett á dagskrá áætlun um hvernig við komumst upp úr þessum ósköpum. Ég get nefnt það og hef reyndar aldrei skilið af hverju menn eru endilega á móti þeirri aðstoð en vilja einhverja aðra í þeim málum vegna þess að sérfræðiaðstoð hjá þessum sjóði er gríðarleg.