139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ríkisstjórnin sé einmitt að leita sér sérfræðiaðstoðar úti í heimi um það hvernig við getum bætt störf Alþingis. Nú liggur fyrir tillaga um að bæta mjög störf Alþingis í þá veru sem ég nefndi áðan, að tryggja aðkomu minni hlutans mjög að málum, að fækka nefndum og gera þær skilvirkari og auka vigt þeirra í hinu pólitíska starfi innan þings og utan. Á yfirstandandi þingi er nú þegar hafin vinna við að laga Alþingi Íslendinga að því besta sem þekkist meðal hinna norrænu þjóða í Skandinavíu, svo sem eins og Svía sem leysa hinn pólitíska ágreining sinn innan þingnefnda og birtast aldrei sem röflandi vælukjóar í þingsal daginn út og daginn inn eins og dæmin sanna hér í þingsal. Þar eru vandamálin leyst á lýðræðislegan hátt í þingnefndum og svo blasir við þeim kyrrt og rólegt þing þess á milli.