139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu sem ég get tekið undir að stærstum hluta ef ekki öllum. Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann er mikill áhugamaður um atvinnuuppbyggingu og gerir sér grein fyrir því hversu mikilvæg hún er og í ljósi þess andsvars sem kom áðan: Er hann sáttur við stöðuna í atvinnumálum og uppbyggingu atvinnumála og hefði ríkisstjórnin ekki getað gert meira að hans mati, eins og hann hefur margoft hvatt hana til í ræðustól á hv. Alþingi?

Seinni spurningin til hv. þingmanns er sú, af því að hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd og situr nú með fjárlagafrumvarpið í höndunum, eins og allir aðrir sem sitja þar, og gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að rýna vel og skoða vel allar fjárveitingar: Er hv. þingmaður sáttur við þá ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka rækjuveiðar út úr kvóta sem eingöngu skilar því að það þýðir 1 milljarð í skaða fyrir skattgreiðendur, það þarf að eyða 1 milljarði út af þessari einu ákvörðun, er hv. þingmaður sáttur við þá ákvörðun?