139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[17:53]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður hafði ekki tíma til að svara seinni spurningu minni ætla ég ítreka hana: Er hv. þingmaður sáttur við þá ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að gefa rækjuveiðar frjálsar sem eingöngu hefur það í för með sér að kosta skattgreiðendur landsins 1.000 millj. kr., 1 milljarð, í ljósi þess ástands sem er núna? Ég ítreka það líka að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kynnti þetta ekki einu sinni í ríkisstjórn. Þess vegna ítreka ég spurninguna: Er hv. þingmaður sáttur við þessa ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra?

Ég tek hins vegar undir það sem hv. þingmaður sagði um að það sé að rofa til og það sem hann benti á varðandi þær framkvæmdir sem eru að fara af stað. Hann nefndi svo það sem gerist með erlenda fjárfestingu og því langar mig að spyrja að lokum: Er hv. þingmaður sáttur við þá yfirlýsingu hv. þm. Atla Gíslasonar um að þjóðnýta hugsanlega samninginn við Magma Energy?