139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:05]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að tjá mig aðeins um þessa tillögu til þingsályktunar frá Framsóknarflokknum um samvinnuráð um þjóðarsátt. Það er alveg hárrétt að það er nafngift á tillögu sem er í anda þess sem mér hugnast ágætlega. Það er greinilegt hér í upphafsorðum tillögunnar að samvinnuhugsjónin er enn til staðar hjá einhverjum. Samvinnuhugsjónin er mjög merkileg og hún hefur skilað Íslandi lengra fram á við á mjög skömmum tíma en margt annað sem gert hefur verið á Íslandi. Sú aðferð sem bændur tóku upp um að vinna saman og stofna sín eigin kaupfélög og úthluta svo úr þeim og leggja þar inn afurðir sínar gerði það að verkum að landbúnaður á Íslandi gjörbreyttist og störf til sveita urðu allt önnur en var áður og umhverfi á Íslandi færðist allt til nútímans.

Þessar tillögur eru merkilegar fyrir það fyrst og fremst, finnst mér, að þær eru skynsamlega og varlega orðaðar. Þær eru ekki í þeim anda sem var í fyrirspurnatímum til ráðherra, þ.e. þær eru ekki settar fram sem tillögur um eitthvað sem menn vita að deilur verði um. Samráð tekst ekki um deilumál, það gefur augaleið. Það sem ég lagði til málanna hér fyrr í dag var einfaldlega þessi spurning: Hvers vegna eru menn að koma með tillögur inn í þingið um atvinnuuppbyggingu sem þeir vita að miklar deilur verða um? Það má gefa sér að ef miklar deilur verða um þær munu þær ekki ná fram að ganga. Og til hvers er þá farið af stað? Til þess að stimpla sig inn hjá einhverjum sérhagsmunahópum? Til þess að slá pólitískar keilur? Eða eru hjörtu manna raunverulega á bak við tillögurnar? Það getur verið margt af þessu en tímanum væri betur varið, að mínu mati, ef menn nálguðust þetta með þeim hætti að þeir legðu fram tillögur sem líklegt er að sátt verði um, svo sem þessi tillaga hér sem er varlega orðuð.

Þetta er algengt í hinum þróaðri samfélögum heimsins og hjá hinum þróuðu alþjóðastofnunum. Og hér á Íslandi þarf einfaldlega nýja nálgun á þessi mál, þ.e. ef menn vilja vinna málin saman. Ég leyfi mér að taka hér nokkur dæmi um mál sem menn hafa lagt mikla áherslu á í atvinnusköpun á Íslandi, sem eru mikil deilumál og menn vita að eru mikil deilumál, þ.e. stóriðju. Stóriðjan er að mörgu leyti ágæt, hún skapar störf til mjög langs tíma og tiltölulega mörg störf. Það er mjög margt gagnrýnisvert við hana líka. Með því að koma hér inn með tillögu, um t.d. álver á Bakka eða álver í Helguvík, vita menn hins vegar að það verða deilur um það á öllum stigum málsins og ef það nær nokkurn tíma fram að ganga mun það taka mjög langan tíma. Ég er ekki að dæma málin sem slík heldur er ég einfaldlega að velta því upp: Er hægt að leggja fram mál varðandi atvinnusköpun sem valda ekki deilum? Virkjanir eru annað mál sem veldur deilum, fyrningarleið í sjávarútvegi er annað mál sem veldur deilum.

Hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom hér inn á mál áðan sem hún kallaði kálver í stað álvera. Mundi kálver valda miklum deilum á þingi? Ég held ekki. Hvað á maður þá að gera? Á maður að leggja fram tillögu um álver eða á maður að leggja fram tillögu um kálver? Ég leyfi ykkur að dæma um það en ef hugmyndin er að skapa atvinnu fyrir fólkið í landinu og nýta orkuna í þeim tilgangi þarf kannski nýja nálgun til að koma þeim verkefnum af stað.

Við höfum lagt fram tillögu um að afla sem veiddur er á Íslandsmiðum verði landað á innlenda uppboðsmarkaði. Það eru flutt út um 35–40 þús. tonn af óunnum fiski á ári, ísuðum. Þetta mundi skapa um 400–500 bein störf og um 200–300 óbein störf með mjög litlum tilkostnaði á mjög skömmum tíma, þ.e. á þeim tíma sem það tæki að ráða í störfin, um 3–4 vikur. Þetta mál hefur ekki valdið deilum hér á þingi, alla vega ekki enn þá, það er komið til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Vonandi fer það í gegn því að það mun skapa atvinnu og er af hinu góða. Einhvers staðar á leiðinni munu væntanlega einhverjir sérhagsmunaaðilar setja sig upp á móti því en vonandi berum við þá gæfu til þess að taka heildarhagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

Það þarf sem sagt nýja nálgun á svona mál og ég sé þá nálgun í þessari þingsályktunartillögu vegna þess hvernig hún er orðuð. Það er ekki tekið fram í smáatriðum hvað á að gera heldur er tekið fram að menn eigi að reyna að ná sátt um aðferðir og mál og það er fyrsta skrefið. Það á að byrja á lægsta samnefnaranum, við viljum öll skapa atvinnu á Íslandi, og þaðan á að vinna sig upp.

Ég hef starfað á alþjóðavettvangi, ég hef starfað hjá Sameinuðu þjóðunum og ég hef starfað hjá OECD. Á slíkum stöðum, þar sem stefnumótun er unnin, dettur mönnum einfaldlega ekki í hug að koma inn með deilumál og leggja þau fram því að þeir vita að þau munu ekki ná fram að ganga og þeir vita að þau muni valda deilum þannig að því er einfaldlega sleppt. Það er oft talað um að þessar stofnanir skili ekki miklu af sér í staðinn en hverju á að skila af sér, hverju skilar það af sér að vera í stöðugum deilum? Það skilar ekki sérlega miklu.

Ég fagna því þessari tillögu og sérstaklega þá þeim aðferðum sem er beitt við framlagningu hennar, þ.e. að hér eru listuð upp tíu atriði sem þarf að taka á. Þau eru öll skilgreind upp að ákveðnu lágmarki, „atvinnuskapandi framkvæmdir“ getur nefnilega þýtt mjög margt. Ég var að keyra Suðurlandsveg í gær, þar er verið að breikka veginn, sem er mjög þörf framkvæmd vegna umferðarþunga, kostar mjög mikið og miklum fjármunum er varið í hana. Þar eru hins vegar ekki nema tíu karlar að keyra tíu vörubíla og fjórir gröfumenn á fjórum gröfum eða jarðýtum að vinna þannig að það skapar kannski ekki sérlega mikla atvinnu þó að framkvæmdin sé þörf ef hugmyndin er að skapa atvinnu fyrir fé ríkissjóðs til dæmis.

Þessum hlutum þarf að velta upp. Einhver atriði hér munu gera miklu meira gagn en önnur og þar ber helst að nefna tillögu númer 1 um almenna skuldaleiðréttingu. Almenn skuldaleiðrétting á þeim verðbólguáhrifum sem hafa lagst á höfuðstól lána heimilanna mun vera það fyrsta og það eina sem kemur einkaneyslu í landinu almennilega af stað og mun drífa áfram hagvöxtinn nú á næstunni. Við munum þurfa að bíða í mörg ár enn eftir að álver taki til starfa og annað þess háttar. En ef okkur tekst vel til, eins og komið hefur fram, m.a. hjá hv. þm. Lilju Mósesdóttur, að fá lífeyrissjóðina til að skilja að almenn skuldaleiðrétting er þeim til hagsbóta en ekki öfugt, því að þá eru einfaldlega meiri líkur á því að þeir muni innheimta lán sín heldur en hitt, er vel af stað farið.

Þessi mál hafa tekið allt of langan tíma, menn hafa verið að ræða þau í tvö ár. Þau hafa ekki hlotið hljómgrunn vegna þess að andstaða er við þau hjá einhverjum fámennum hópi þingmanna og e.t.v. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. En þetta er dæmi um mál sem mundi skila af sér alveg gríðarlegum áhrifum inn í efnahagslífið á mjög skömmum tíma. Það tekur nefnilega ekki mjög langan tíma að afgreiða svona mál.

Ég vil hrósa Framsóknarflokknum fyrir þetta og fyrir það að maður sér hér glitta í hjarta Samvinnuhreyfingarinnar. Yfirlýsing um dauða hennar var greinilega ótímabær og ég fagna því að við sjáum það hér enn í sölum þingsins í dag.