139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:17]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef setið þessa svokölluðu samráðsfundi og ég hef orðið fyrir vonbrigðum með þá. Ég hef setið á móti oddvitum ríkisstjórnarinnar og lagt fram málefnalegar tillögur og reynt að ræða þær en ég hef talað inn í tómið. Það hefur hingað til ekki verið mikill vilji fyrir samráði.

Ég heyri það í þingsal og meðal þingmanna miklu frekar að vilji sé fyrir samráði og meira samstarfi en það strandar á örfáum ráðherrum, á oddvitum ríkisstjórnarinnar, eða hefur gert það hingað til. Það þarf ekki að vera svoleiðis. Það kom mikið fát á hæstv. forsætisráðherra eftir 4. október sl. og boðað var til samráðs strax daginn eftir. En það var alveg greinilegt á þeim fyrsta fundi að hugur virtist ekki fylgja máli. Ég hef persónulega frekar litla trú á að hægt sé að fara í eitthvert alvörusamráð við þá ríkisstjórn sem nú er við völd, því miður því að ég held að nauðsynlegt sé að þingið skili af sér betri vinnu en það hefur gert hingað til. Ég tek aftur á móti þátt í þessari umræðu í dag og ég mun halda áfram að mæta á alla þá fundi sem við erum boðuð á um samráð og samvinnu vegna þess að það er einfaldlega skylda mín og skylda okkar sem þingmanna að gera það. Ég mun áfram halda tillögum okkar til streitu og ég veit að framsóknarmenn munu halda tillögum sínum til streitu. Ég vona að einn góðan veðurdag fái þær betri viðtökur en þær hafa fengið hingað til því að það veitir svo sannarlega ekki af að bæta úr á þingi. Við heyrum að fólkið fyrir utan er ekki að biðja um ný andlit í ríkisstjórn. Fólk er að biðja um nýtt Alþingi sem stofnun og við verðum að bregðast við því.