139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[18:23]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka mjög góða umræðu sem fram hefur farið um þessa þingsályktunartillögu í dag. Það er óhætt að segja að hér hafi kveðið við nýjan tón, þó reyndar ekki í fyrsta skiptið því að við þingmenn höfum alloft áður rætt um mikilvægi þess að vinna saman að hinu og þessu og oft erum við sammála um mál. Flest mál held ég að þingmenn séu reyndar sammála um. Vandinn er kannski fyrst og fremst sá að það kemur ekki nógu mikið af nógu góðum málum frá ríkisstjórninni, að mínu mati a.m.k. En ýmislegt erum við sammála um og það er ágætissamstaða um þessa tillögu.

Rétt er að rifja upp að þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi tillaga er lögð fram. Við lögðum hana fram í mars á þessu ári, nánast eins og hún er núna, og sömdum svo um það við ríkisstjórnina þegar þingstörfum var frestað í sumar að þetta mál fengi að fara til meðferðar í efnahags- og skattanefnd og leitað yrði umsagna, svo yrði málið afgreitt úr nefnd og tekið fyrir í þinginu. Þetta var hluti af samningum um þingstörf á sínum tíma. Við féllumst á að öðrum málum yrði frestað en þetta tekið fyrir. Þetta var rætt í hv. efnahags- og skattanefnd. Sóst var eftir umsögnum um málið, m.a. frá Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands. Þau samtök sáu enga ástæðu til þess að skila inn áliti, hugsanlega vegna þess að þetta var tillaga frá stjórnarandstöðu, ég veit það ekki. Mér finnst skjóta svolítið skökku við hvernig forseti Alþýðusambandsins talar svo núna, bæði á ársþingi ASÍ fyrir skömmu þegar hann talaði reyndar mikið um hve illa gengi hjá ríkisstjórninni en taldi sig svo þurfa að bæta við að stjórnarandstaðan hefði skipulega stoppað mál ríkisstjórnarinnar og svo endurtók hann eiginlega það sama í viðtali við útvarpið í dag. Þetta er náttúrlega reginfirra eins og við bentum á, forusta Framsóknarflokksins, með yfirlýsingu fyrst eftir að ummælin féllu á ársþinginu og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins gerði í dag eftir að ummælin voru ítrekuð. En þetta er dálítið lýsandi fyrir hvert viðhorf a.m.k. hluta stjórnvalda hefur verið til samráðsins og birtist einnig í ræðum hæstv. forsætisráðherra í dag. Samráðið virðist fyrst og fremst til þess ætlað að setja á svið einhverjar sýningar til að geta haldið því fram að stjórnarandstaðan hafi komið að borðinu og verið með ríkisstjórninni í að skoða málin til þess að geta síðan sagt þegar leiðir ríkisstjórnarinnar ganga ekki upp: Ja, þetta er öllum að kenna. Þessi tugga er endurtekin aftur og aftur.

Talað er um traust til Alþingis og að Alþingi hafi brugðist. Ég er ekki sammála því að Alþingi hafi t.d. brugðist í atvinnumálunum vegna þess að þingmenn úr stjórnarandstöðu og raunar nokkrir stjórnarliðar líka hafa talað fyrir tillögum sem ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekki léð máls á, farið allt aðra leið. Hún er í rauninni mjög mótfallin stefnu stjórnarandstöðunnar í atvinnumálum og fer leið sem mér finnst vera ákaflega afturhaldssöm og í raun sósíalísk og hefur ekki virkað. Þá á að kenna þinginu öllu um. Við verðum að vara okkur á því ef farið verður í samstarf að það liggi fyrir í upphafi að menn séu nokkuð sammála um hvert skuli stefna og hafi einhverja hugmynd um hvernig að því verði staðið.

Það er tilgangurinn með þessari tillögu að menn hafi nokkurs konar vegvísi áður en lagt er af stað. En eins og hv. þm. Þór Saari benti á er þetta þó ekki þannig að það sé útlistað nákvæmlega hvernig eigi að standa að hlutunum heldur fyrst og fremst að menn séu sammála um markmiðin og meginleiðir en geti í framhaldinu komið sér saman um útfærsluna. Það held ég að sé mikilvægt vegna þess að við höfum séð aftur og aftur að þegar tillögur koma frá einhverjum öðrum en forustu ríkisstjórnarinnar er lítið gert með þær vegna þess einfaldlega hvaðan þær koma. Ég nefndi sem dæmi áðan þegar hæstv. forsætisráðherra setti út á tillögu sjálfstæðismanna um kvótaaukningu í ræðu sinni og sagði: Við skulum bara sjá til hvað Hafrannsóknastofnun segir um það. En hæstv. forsætisráðherra hafði daginn áður lagt fram einu konkrettillögu ríkisstjórnarinnar í raun um leið til að skapa störf, þ.e. kvótaaukningu. Tillagan var ómöguleg þegar hún kom frá öðrum flokki í dag, annað en þegar hún kom frá ríkisstjórninni í gær.

Hvernig má komast hjá þessu? Hugsanlega með samvinnuráði sem hefur vegvísinn tilbúinn áður en lagt er af stað. Reyndar held ég að sé langlíklegast til árangurs — við sjáum það enn þá betur af umræðunni í dag — að koma á þjóðstjórn í ákveðinn tíma um ákveðin mál, nokkuð svipað þessari tillögu en í stað samvinnuráðs væri það í raun þjóðstjórn. Af hverju er það betri leið? Það er vegna þess að þá bæru allir ábyrgð sameiginlega og tillögur sem kæmu inn í þingið frá ríkisstjórn, þjóðstjórninni, væru ekkert rétthærri en aðrar tillögur af því að allir væru þátttakendur í stjórninni og gætu því allir tekið tillögunum vel eða gagnrýnt þær. Þá loksins mundi losna um það vald sem þingið ætti að hafa. Þá væru menn ekki fyrst og fremst að elta forustu ríkisstjórnarflokkanna eins og núna heldur mundi losna um hinn raunverulega vilja Alþingis. Ef það gerðist held ég að við gætum náð mörgum góðum málum í gegn á skömmum tíma vegna þess að þrátt fyrir allt held ég, eins og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson benti á áðan, að það sé meiri hluti á þinginu, raunverulegur meiri hluti ef menn kjósa samkvæmt sannfæringu sinni, fyrir mjög mörgum góðum málum. Þess vegna hallast ég að því núna að eina rétta leiðin til að taka á þessum vanda sé að allir flokkar komi saman að málum, skipti með sér verkum en beri sameiginlega ábyrgð og valdið fari til þingsins.

Ég þakka þá umræðu sem fram hefur farið um þessa þingsályktunartillögu. Ég vona að ekki fari fyrir henni eins og síðast. Ég nefndi í upphafi að samið hefði verið um það eftir að tillagan var lögð fram í mars að hún færi í efnahags- skattanefnd og yrði kláruð þar og tekin til atkvæða en við það var ekki staðið í september. Þannig að þó að menn séu jákvæðir á þetta núna eins og þeir voru þá þá vona ég að örlög tillögunnar verði ekki þau sömu og síðast heldur fari hún til afgreiðslu aftur í efnahags- og skattanefnd og komist út úr þeirri nefnd en verði ekki látin sofna þar, nema náttúrlega verði búið að koma á þjóðstjórn áður en að því kemur. En fari ekki svo vona ég að tillagan fái skjóta og góða afgreiðslu í nefndinni og fulltrúar ASÍ sjái sér fært að senda inn umsögn um tillöguna. Það veitir ekkert af því að forusta Alþýðusambandsins taki þátt í því samráði sem forseti þess sambands kallar eftir. Fáar stofnanir hafa jafnlítið traust samkvæmt könnunum og Alþingi þessa dagana en þó nær forusta Alþýðusambandsins því samkvæmt könnun á Bylgjunni þar sem 91% ber lítið eða ekkert traust til forustu Alþýðusambandsins en 3% mikið. Nú er kjörið tækifæri fyrir forustu Alþýðusambandsins, Samtök atvinnulífsins og fleiri aðila sem hér eru nefndir að koma að málinu með þinginu öllu, fyrst í meðförum nefndarinnar og síðan í framhaldinu annaðhvort með þjóðstjórn eða þessu samvinnuráði sem hér er lagt til.

Ég ítreka þakkir til þingmanna fyrir umræðuna í dag og legg til að málinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar Alþingis.