139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

viðauki við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

123. mál
[18:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um heimild til handa ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Markmið breytinganna er að tryggja þátttöku Íslands í þeirri umbreytingu sem verið er að vinna að á starfi og umgjörð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þeirri endurskoðun sem nú fer fram á starfsemi sjóðsins er það markmið hennar að auka trúverðugleika og skilvirkni sjóðsins og hún felst í því annars vegar að auka kvóta, sérstök dráttarréttindi, þeirra ríkja sem hafa eflst efnahagslega síðustu árin og auka þar með möguleika þeirra á að nýta sér fyrirgreiðslu sjóðsins ef á þarf að halda og hins vegar að auka þátttöku fátækari ríkja. Með lögunum verður Ísland í hópi helmings 187 aðildarríkja AGS sem hafa rúmlega 80% atkvæðavægi í stjórn sjóðsins sem hafa staðfest breytingar á og viðauka við stofnskrána.

Til þess að breytingarnar öðlist gildi þurfa 113 ríki að samþykkja tillögurnar en þessi 113 ríki hafa 85% atkvæðavægi af hálfu aðildarríkjanna. Efnisáhrif breytinganna eru mjög lítil á Íslandi þar sem smærri hagkerfum verður tryggt aukið lágmarksatkvæðavægi eykst atkvæðavægi Íslands lítillega, úr 0,065 í 0,076.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til efnahags- og skattanefndar.