139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 114/2008 um breytingu á IX. og XIX. viðauka við EES-samn.

134. mál
[19:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu leita ég heimildar Alþingis til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 sem felur í sér breytingu á viðaukum við EES-samninginn, en þeir varða fjármálaþjónustu annars vegar og hins vegar neytendavernd, og jafnframt að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB sem varðar greiðsluþjónustu á innri markaðnum.

Tilskipunin gerir m.a. kröfur til greiðslumiðlunar um starfsleyfi, eftirlit, opinbera skráningu, varðveislu gagna o.fl. Líka eru gerðar kröfur um gagnsæi varðandi skilyrði fyrir starfrækslu greiðslumiðlunar og kröfur til upplýsingagjafar.

Sömuleiðis er að finna í tilskipuninni ítarleg ákvæði um réttindi og skyldur í tengslum við skilyrði og notkun ólíkra greiðslukerfa, þar á meðal um ábyrgð greiðslumiðlunar og greiðenda t.d. á óheimilum greiðslukortafærslum.

Það er ráðgert að þessi tilskipun verði innleidd á yfirstandandi löggjafarþingi með lögum um greiðsluþjónustu en efnahags- og viðskiptaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til slíkra laga á yfirstandandi löggjafarþingi.

Fyrirhugað er að Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa, Samkeppniseftirlit og Seðlabanki Íslands hafi með sér samstarf vegna eftirlits með framkvæmd fyrirhugaðra laga um greiðsluþjónustu. Sömuleiðis er fyrirhugað að koma á fót sérstakri úrskurðarnefnd um greiðsluþjónustu.

Hér er um að ræða verulega aukna vernd fyrir neytendur. Það má ætla að mestur kostnaður vegna framkvæmdanna falli á Fjármálaeftirlitið. Til að standa undir þeim kostnaði er fyrirhugað að bæta við gjaldtökuheimild í lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingu hér á landi eins og ég hef gert grein fyrir og hún var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því óska ég eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að það megi aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.