139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 32/2010 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

135. mál
[19:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég legg þessa tillögu fyrir Alþingi til að leita heimildar til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010 um breytingu á viðauka EES-samningsins um flutningastarfsemi. Sömuleiðis að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.

Markmið tilskipunarinnar er að knýja skipaeigendur til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir kunna að valda með skipum sínum. Tilskipunin tekur til allra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri, að undanskildum herskipum og skipum í eigu eða útgerð ríkis sem eru eingöngu starfrækt í þjónustu hins opinbera og ekki í atvinnuskyni. Það er kveðið á um það í tilskipun þessari að öll skip sem sigla undir fána aðildarríkis í Evrópusambandinu auk allra skipa sem koma í hafnir þeirra þurfi að hafa tiltekna ábyrgðartryggingu.

Með þessari tilskipun er ætlað að stoppa í lagalegt gat í alþjóðlegu siglingalöggjöfinni þar sem engin almenn skylda hvílir á skipaeigendum að þjóðarétti til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila. Gerð er krafa um það í tilskipuninni að um borð í hverju skipi sé skírteini til staðfestingar því að tryggingarskyldunni sé fullnægt. Það er á höndum hafnarríkiseftirlits að kanna hvort skip sem koma til hafnar í viðkomandi ríki hafi slíkt skírteini um borð. Ef í ljós kemur að svo er ekki skulu ríki hafa til staðar ákveðin úrræði að grípa til. Í því sambandi kæmi m.a. til greina kyrrsetning eða brottvísun skips.

Telja verður að tilskipunin sé til verulegra hagsbóta fyrir skipaeigendur sem eru með fullnægjandi tryggingar vegna þess að þeir þurfa eftirleiðis ekki að vera í samkeppni við lítið eða ótryggð skip.

Það er stefnt að innleiðingu tilskipunarinnar með breytingum á siglingalögum og hyggst samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra leggja fram frumvarp um það efni á því þingi sem nú er hafið.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún á sínum tíma tekin með þeim hefðbundna stjórnskipulega fyrirvara sem stjórnarskrá mælir fyrir um. Þess vegna er óskað eftir því að Alþingi samþykki þá breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni fólst svo aflétta megi þessum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg svo til, frú forseti, að þegar þessari umræðu er lokið verði þessari merku tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.