139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér hófst þinghald á ný síðdegis í gær en sem kunnugt er gera þjóðþing allra Norðurlandanna átta á ári hverju hlé á störfum sínum til að unnt sé að halda þing Norðurlandaráðs sem að þessu sinni fór fram hér í Reykjavík. Þingið er meginviðburðurinn í hinu norræna samstarfi þar sem fólk alls staðar að af Norðurlöndunum kemur saman til að bera saman bækur sínar, fara yfir það sem árið hefur borið í skauti sér og gera áætlanir fyrir hið næsta. Hingað komu á sjöunda hundrað gestir í þeim tilgangi. Það skiptir okkur Íslendinga gríðarlega miklu máli því að Norðurlöndin hafa sannarlega reynst okkur mikilvægur bandamaður í þeim erfiðleikum sem við erum að glíma við, bæði hvað varðar ráðgjöf og fjárhagslegan stuðning. Þinghaldið tókst í framkvæmd einstaklega vel og gestir okkar lofuðu framkvæmd þess ákaflega þegar þeir fóru héðan í gær. Ég vildi þess vegna nota þetta tækifæri, virðulegur forseti, sem forseti Norðurlandaráðs og fyrir hönd okkar í Íslandsdeildinni til að þakka starfsfólki Alþingis sem hefur lagt nótt við nýtan dag að undanförnu til að tryggja að þetta þinghald gæti farið fram þannig að sómi væri að, efldi traust á Íslandi og virðingu fyrir okkur og því sem hér er gert.

Starfsfólk þingsins stóð sig satt að segja alveg frábærlega og ég bið forseta Alþingis um að færa því fyrir okkur þingmenn kærar þakkir fyrir hið góða starf.