139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög margt sem hægt er að taka upp undir liðnum um störf þingsins, margt sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Einn er samt sá málaflokkur sem ég hef afskaplega miklar áhyggjur af og ég held að ég sé ekki einn um það. Það eru heilbrigðismál þjóðarinnar.

Því hefur verið haldið fram að fjárlagatillögur ríkisstjórnarinnar hafi verið illa undirbúnar. Það er fráleitt að halda því fram og engin sanngirni í því, virðulegi forseti, því að það er algjörlega ljóst að þær voru ekki undirbúnar. Við stöndum núna frammi fyrir því að við höfum nokkrar vikur til að ganga frá þessu fjárlagafrumvarpi, þar með talinn er sá viðkvæmi málaflokkur sem heilbrigðismálin eru. Það er á okkar ábyrgð að það verði gert eins vel og hægt er. Þetta snýst um að bjarga því sem bjargað verður. Ég legg það til, virðulegi forseti, og við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd, að við breytum núna til, að nefndin leggist sérstaklega yfir þennan þátt mála, fundi eins mikið og mögulegt er og fari yfir gögn sem eru að vísu ekki tilbúin nema að litlu leyti fyrir þetta fjárlagafrumvarp en þau sem hafa verið unnin áður og reyni að vinna þetta eins vel og hægt er.

Fyrir þá sem ekki þekkja til sér fjárlaganefnd alla jafna einungis um þennan þáttinn. Sú staða sem komin er upp í málaflokknum kallar hins vegar á að heilbrigðisnefnd einbeiti sér að því að vinna að fjárlagaþætti heilbrigðismála á næstu vikum. Á sama hátt yrðu aftur settir af stað þeir hópar sem voru að vinna úti um allt land eða sambærilegir hópar til að vinna að því að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna (Forseti hringir.) miðað við breyttar forsendur. Það er okkar tillaga, virðulegi forseti, og ég vona að stjórnarliðar taki vel í hana.