139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:10]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Mikil umræða hefur átt sér stað um efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda undanfarið. Framsóknarflokkurinn kynnti sínar hugmyndir í gær og Sjálfstæðisflokkurinn mun gera það hér í dag. (Gripið fram í: Góðar hugmyndir.)

Ég er hingað kominn til að leggja á það áherslu að mín skoðun er sú að við eigum að halda mjög fast við þá efnahagsáætlun sem er mörkuð í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Án samstarfs við hann á sínum tíma hefði greiðslufall vofað yfir íslenska ríkinu sem hefði þýtt áralanga útskúfun af erlendum fjármálamörkuðum. Samstarf við AGS er einnig forsenda þess að íslensk stjórnvöld geti haldið fast við gjaldeyrishöftin en án þeirra er ljóst að íslenska krónan hefði veikst mun meira en raun ber vitni með meðfylgjandi hækkun verðbólgu. Þannig má kannski segja að án samstarfsins við AGS á undanförnum tveimur árum hefði kreppan orðið mun dýpri en ella. Ég held að það sé algjört glapræði að víkja frá þeirri efnahagsstefnu en tek undir þau sjónarmið sem hér hafa verið rædd, að vissulega megi endurskoða einstakar hugmyndir í þeim fjárlagaramma sem hefur verið markaður, færa til fjármuni innan hans, en ramminn þarf að haldast fastur.

Það eru erfiðir tímar núna og leiðir okkar út úr vandanum eru að greiða fyrir erlendri fjárfestingu, opna erlenda fjármagnsmarkaði fyrir íslensk fyrirtæki svo þau geti farið að fjárfesta á nýjan leik og það gerum við í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.