139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:21]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þær umræður sem orðið hafa sér í lagi um stöðuna í samfélaginu, skuldavanda heimila og fleira. Sameiginlegt verkefni okkar allra sem kjörin erum á Alþingi, hvar í flokki sem við erum og hvort sem flokkar okkar eiga aðild að ríkisstjórn eða ekki, er að takast á við þau viðfangsefni og þann vanda sem blasa við heimilum og atvinnulífi í landinu. Við eigum öll að leggja okkur fram um það. Okkur getur greint á um leiðir að því marki og það eru engar patentlausnir til, það er engin patentlausn að fara í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn um efnahagsstefnu, það er engin patentlausn að fara í flata niðurfellingu á skuldum. Aðgerðirnar sem gripið er til verða að vera markvissar, þær verða að miðast við þá sem eiga í mestum erfiðleikum og í því efni held ég að skynsamlegt sé að horfa á þær fjölskyldur sem tóku húsnæðislán sín fyrir nokkrum árum, á síðustu árum fyrir hrun, það er augljóst að vandi þeirra er mestur. Það þýðir ekki að vandi annarra sé ekki líka eitthvað sem þarf að takast á við, en það er mjög mikilvægt að aðgerðirnar séu markvissar. Það skiptir líka máli upp á áhrifin í samfélaginu að öðru leyti að aðgerðirnar séu markvissar.

Hvað varðar samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er alveg ljóst að fyrrverandi ríkisstjórn tók ákvörðun á Alþingi um að fara í það samstarf. Við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði lögðumst gegn því, við töldum það ekki vera heppilegt. Við erum hins vegar í því samstarfi og það er mikilvægt að ljúka því, því fyrr því betra. Ég tel að það hafi að mörgu leyti gefist vel. Tekist hefur að hafa áhrif á stefnumörkunina frá því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði upp með, en það er líka mikilvægt að við komum okkur út úr því samstarfi sem fyrst. Stefnt er að því á miðju næsta ári og við hljótum öll að fagna því. En ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur öll að leggja okkur fram um, reiðilaust og án (Forseti hringir.) upphrópana, að takast á við þau verkefni í sameiningu sem við er að glíma.