139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

störf þingsins.

[11:31]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist vegna orða hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ríkisstjórnin hafi ekki lagt neitt fram, engin mál er varða skuldavandann eða annað. Ég bið þingmenn að gæta sanngirni í málflutningi um þetta eins og annað. Það verður enginn stærri af því að halda fram rangindum í ræðustól.

En það var ekki ástæða þess að ég bað um orðið heldur orð hv. þingkonu Eyglóar Harðardóttur, um biðraðirnar við hjálparsamtökin, hvort sem það er Mæðrastyrksnefnd eða Fjölskylduhjálpin hér á höfuðborgarsvæðinu — og þau eru fleiri, vitum við. Haldin var um þetta efni mjög fróðleg og góð ráðstefna í síðustu viku þar sem rætt var um það hvernig stendur á því að þetta er með þessum hætti hér á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni. Þar er þó víða við mikinn vanda að etja í mörgum sveitarfélögum. Þar kom félagsmálastjóri úr Skagafirði, ef ég man rétt, og talaði um þær ráðstafanir sem þar eru gerðar og um samvinnu sveitarfélaga, hjálparstofnana, rauðakrossdeildar eða annarra, og fyrirtækja og gefenda. Þar fer starfið fram með þeim hætti að mannsæmandi er, þannig að börn líða ekki fyrir það og ekki er verið að fjalla um það opinberlega. Þetta var um margt mjög fróðlegur fyrirlestur.

Hér á höfuðborgarsvæðinu er unnið mikið og gott sjálfboðastarf, aðallega eru það konur sem hafa lagt sig fram árum og áratugum saman um að sinna þessum málefnum. Það þarf hins vegar betra samstarf milli sveitarfélaga, félagasamtaka og ríkis um framkvæmdina á þessu starfi sem er bæði gott og nauðsynlegt. En það þarf að vera, eins og allt annað svona starf, (Forseti hringir.) þó að það sé unnið af félagasamtökum, faglegt og mannsæmandi.