139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[11:57]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru margar góðar tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn flytur hér. Ég get sagt það að ég styð margar þeirra og hef lýst stuðningi við sumar. Ég styð t.d. allar nema eina af þeim atvinnutillögum sem þarna er að finna.

Hv. þingmann skorti hins vegar tíma til þess að fara í eitt algjört lykilatriði í þessum tillögum. Ég sé þegar ég les þær að talað er um að það eigi að taka til baka, byrja á næsta ári og síðan árið 2012, allar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar. Samt sem áður á að skila hallalausum fjárlögum árið 2013. Hvernig í ósköpunum á að gera það? Jú, hv. þingmaður sagði hérna: Auðvitað þarf að fara í mikinn niðurskurð. En til þess að þetta dæmi Sjálfstæðisflokksins gangi upp þarf augljóslega að fara í botnlausan niðurskurð.

Ég tek þessum tillögum vel en þær eru hins vegar óreiknaðar þrátt fyrir alla reiknimeistara Sjálfstæðisflokksins. Það er sjálfsagt að fara yfir þessar tillögur. Þær þarf þó að reikna. Þessar tillögur Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) held ég einfaldlega að gangi ekki upp. Þær munu leiða til (Forseti hringir.) slíks niðurskurðar í félagslega kerfinu að við höfum (Forseti hringir.) aldrei séð annað eins áður (Forseti hringir.) ef það verður farið eftir þessu. (Forseti hringir.) (BJJ: Rólegur.)