139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[11:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að ég greiddi fyrir því að þetta mál kæmi á dagskrá er að ég hef trú á samkeppni hugmynda. Mér finnst að stjórnmálaflokkar eigi að leggja fram valkosti. Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram valkost. Ég tek mark á honum og það er margt mjög athyglisvert í honum. En það verður að vera klárt þegar menn leggja fram svona tillögur að þær gangi upp. Að halda því fram að það sé hægt að taka allar skattahækkanirnar til baka, fara í þessa einskiptistekjuöflun sem lífeyrissjóðirnir eru og samt sem áður skila (ÓN: Einskiptis?) hallalausum — víst er það einskiptis — fjárlögum 2013 er, ég skal ekki halda því fram að það sé óskhyggja en ég vil sjá það skýrt á blaði að það gangi upp. Ég leyfi mér að efast um það. (Gripið fram í.)

Ég óttast að það sem þessar tillögur feli í sér sé miklu skelfilegri niðurskurður í hinu félagslega kerfi á velferðarsviðinu en við höfum nokkru sinni áður séð.

Síðan ætla ég, frú forseti, að nota síðustu þrjár sekúndur mínar til þess að segja: Ég er að reyna hér að eiga (Forseti hringir.) málefnalega umræðu. Þarna situr fólk úti í sal (Forseti hringir.) sem reynir að svipta mig (Forseti hringir.) málfrelsinu í þessa eina mínútu. Maður getur ekki (Forseti hringir.) talað (Gripið fram í.) vegna þess að þetta fólk er hrætt við sínar eigin tillögur. [Frammíköll í þingsal.]