139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft fyrir því að reikna áður en hann ákvað að tryggja allar innstæður hefði hann fengið þá tölu að ef hann hefði haldið sig við lágmarkstrygginguna hefði hann átt að tryggja innstæður rúmlega 90% allra innstæðueigenda á Íslandi.

Síðan staðfesti seðlabankastjóri núna í vikunni að ekki væri hægt að afnema gjaldeyrishöftin vegna þess að íslenska bankakerfið væri of veikburða þannig að þeir fóru þá í staðinn í vaxtalækkun. Þetta er staðfesting á því sem t.d. Bankasýslan benti á, að nýja bankakerfið sem var endurreist samkvæmt áætlun Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er allt of stórt og veikburða.

Ég spyr enn á ný: Er þetta þá staðfesting á því að sú áætlun hafi mistekist? Eða er verið að reyna að sparsla í þessi risastóru göt?