139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:05]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er hér haldið á lofti rangri staðhæfingu um að ríkið hafi ábyrgst allar innstæður í landinu. Við komum þeim í skjól í nýju bankakerfi. Það eru bankar sem eru í eigu kröfuhafanna annars vegar og ríkissjóðs í gegnum Landsbankann hins vegar sem skulda þessar innstæður í dag. Á móti þeim eru eignir þessara banka. Ríkið er ekki í ábyrgð fyrir innstæðunum, það er bara risastór misskilningur, en sú aðgerð var skynsamleg á sínum tíma.

Hv. þingmaður hefur komið upp og talað fyrir því að við hefðum átt að skilja allt sem var umfram lágmarkstrygginguna bara eftir og láta reka á reiðanum. Er hv. þingmaður virkilega að tala fyrir því að allar innstæður í þessu landi, sama hvort þær voru í eigu sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana, hjálparsamtaka þess vegna, ríkisins eða einstaklinga, fjölskyldnanna í þessu landi, sparifjáreigenda, hefði átt að láta reka á reiðanum? Áttum við bara að sjá til hvort þrotabú gömlu bankanna gætu ráðið við að endurgreiða þær? Ég skil ekki þennan málflutning. (Gripið fram í.) Ég bara næ þessu ekki. (Forseti hringir.)