139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:08]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ein mínúta í tvígang er náttúrlega allt of stuttur tími til að taka hér málefnalega umræðu um þessar tillögur sem eru um mjög margt góðar. (Gripið fram í.) Ég vil hins vegar setja fram spurningu við eitt sem hér kemur fram hvað varðar álverið í Helguvík. Stíflan þar er í orkusölusamningnum á milli þess sem býr til orkuna og þess sem kaupir hana. Þar eru menn ekki sammála um verð, þess vegna er það mál komið fyrir gerðardóm í Svíþjóð. Svo gjarnan vildi ég ýta því máli eitthvað áfram, en það er bara ekki í höndum okkar alþingismanna. Við hv. þingmaður erum sammála um að við eigum að örva hagkerfið með skattalegum hvötum en ég tel við eigum ekki að fara að eyða peningum sem eru ekki til í dag. Við eigum að gefa fyrirtækjum vilyrði um að við munum hjálpa þeim þegar ríkissjóður getur komið til móts við þau árið 2011 eða 2012 eða síðar, en þau vita þá af því í dag og geta gert ráð fyrir því í viðskiptaáætlunum sínum að þau muni fá afslætti ef þau leggjast í framkvæmdir eða nýráðningar núna. Um það erum við sammála en ég tel að við ættum fyrst að taka það skref og örva hagkerfið og svo eigum við að gefa loforð um (Forseti hringir.) hluti sem við eigum (Forseti hringir.) kannski í erfiðleikum með að standa við eins og rammi okkar er (Forseti hringir.) í dag.