139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:09]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Langflestar af þeim aðgerðum sem við tínum til sem eru að okkar mati til þess fallnar að örva hagkerfið eru aðgerðir sem má sjá að ríkisstjórnir annarra landa hafa gripið til. Það er sama hvort við lítum til Bandaríkjanna eða Bretlands eða annarra Evrópuríkja, þetta eru aðgerðir þar sem ríkisstjórnir leggja áherslu á að fjölga störfum, koma fólki af atvinnuleysisskrá þannig að það sé ekki á bótakerfunum og koma því til starfa þannig að það geti hjálpað sér sjálft. (Gripið fram í.) Það er það sem er algjört lykilatriði varðandi örvunaraðgerðir.

Stóri hausverkurinn í raun og veru, þau neikvæðu tíðindi sem okkur hafa borist að undanförnu gegnum hagvaxtarspárnar, er að allt það sem hv. þingmaður er að kalla eftir að gerist er að fara í hina áttina. Við erum sammála um að hér þurfi að búa til hagvöxt en hagvaxtarspárnar eru allar á leiðinni niður. (Forseti hringir.) Hagvöxtur á næsta ári verður (Forseti hringir.) minni en við (Forseti hringir.) vonuðumst til í upphafi ársins (Forseti hringir.) þannig að hans eigin ríkisstjórn stendur sig ekki (Forseti hringir.) í stykkinu.