139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er alveg hárrétt og hv. þingmaður hefur rifjað það upp með mér þegar sú vinna hófst að ná í þessi grundvallargögn sem verða auðvitað að liggja á borðum þegar verið er að tala um hvernig koma eigi skuldsettustu heimilunum í landinu til aðstoðar og þeim sem verst hafa farið út úr hruninu. En þessi persónuverndarmál eru náttúrlega þannig og það er þungt að þurfa að segja það að við neyddumst svo til þess að fallast á að þessum gögnum væri öllum eytt eftir þá miklu vinnu og gagnaöflun sem fór fram. Það gengur náttúrlega ekki upp vegna þess að þetta er grundvallarstjórntæki, hagstjórnartæki hjá einu ríki að vera með þessar upplýsingar. Það hlýtur að vera hægt að hafa þær þannig að ekki sé hægt að rekja þær eftir persónu hvers og eins. Það er hægt að hafa það svoleiðis.

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður nefndi hér atriði varðandi atvinnuuppbygginguna sem ég gerði hér að meginmáli mínu vil ég taka það skýrt fram sem ég sagði áðan að þótt mér hafi orðið tíðrætt um tvö verkefni sem eru á næstu grösum, (Forseti hringir.) Helguvík og hugsanlega einhverjar framkvæmdir fyrir norðan, þá (Forseti hringir.) hefur margt annað verið gert fyrir ferðaþjónustuna, (Forseti hringir.) gagnaverin og fleira þó að margt (Forseti hringir.) mætti ganga betur, en (Forseti hringir.) við verðum að hafa fjölbreytt atvinnulíf, (Forseti hringir.) virðulegi forseti.