139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:45]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi komið fram í lokaorðum hv. þm. Kristjáns Möllers að hann sé ekki alveg fullsáttur við efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur það auðvitað að meginmarkmiði að hækka skatta eins og við þekkjum.

Ég gleðst auðvitað, eins og hv. þingmaður, yfir hverju nýju starfi sem skapast í þjóðfélaginu og að það séu aðstæður og jarðvegurinn sé með þeim hætti í atvinnustarfseminni að menn sjái hvata til þess að skapa ný fyrirtæki og ráða til sín fólk. Það er þar sem meginverkefni okkar alþingismanna liggur, að búa til þennan frjósama jarðveg.

Ég ætla ekki að fara að oftúlka orð hv. þm. Kristjáns Möllers en ég tel þó að í orðum hans hafi legið að það skipti máli fyrir okkur á Alþingi og meiri hluta þingsins að ná árangri í þessum mikilvægu málum áður en fjárlagagerðinni lýkur, að það sé sá tímarammi sem hv. þingmaður gefur sér til að leysa úr þessum brýnu málum, það þurfi að vera kominn botn í það hvernig menn sjá fyrir sér næsta ár á þessu fjárlagaári. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta mjög merkileg tíðindi.