139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[12:48]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu sem fram fer um þá þingsályktunartillögu sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram og tekin var á dagskrá fyrr í dag. Ég tel að það sé mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í í íslensku samfélagi að allir leggi sitt af mörkum og leggi allir fram hugmyndir sínar. Að því leyti tek ég undir með hæstv. utanríkisráðherra sem sagði að eðlilegt sé að menn tefli fram hugmyndum sínum, setji þær í pott og takist síðan á um þær eftir atvikum.

Á dagskrá í gær var líka þingsályktunartillaga frá þingmönnum Framsóknarflokksins um samvinnuráð um þjóðarsátt. Á fundum Alþingis höfum við iðulega rætt um aðgerðir, stjórnarfrumvörp til aðstoðar fólki í erfiðleikum, hvort sem það hafa verið fjárhagslegir þættir eða lagatæknilegir þættir og annað slíkt. Allir hafa lagt sitt af mörkum og það er mikilvægt.

Vegna ásakana ýmissa þingmanna í umræðum undir störfum þingsins fyrr í dag um að ríkisstjórnin gerði ekki neitt til að takast á við vandann segi ég að auðvitað eru þessar fullyrðingar rangar, það vita menn. Menn geta slegið fram slíkum fullyrðingum í hita leiksins, í hinu pólitíska þrátefli, en auðvitað vita þeir að það er ekki rétt. Verið er að vinna mjög ötullega að frekari aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vænti þess að sá starfshópur sem haft hefur umsjón með því verki ljúki skýrslu sinni um helgina og að hún verði kynnt fljótlega eftir helgi. Í kjölfarið þarf að taka upp pólitískar ákvarðanir því að það gerir ekki starfshópur á vegum stjórnvalda. Það er stjórnmálamanna að taka hinar pólitísku ákvarðanir um það til hvaða ráðstafana verður gripið. Það bíður þá okkar á þingi að takast á við það á næstu dögum.

Ég vil líka segja að ég tel að það innlegg sem Sjálfstæðisflokkurinn kemur með hér sé mikilvægt inn í þessa umræðu og að taka eigi því fagnandi að fram komi hugmyndir burt séð frá því hvort menn eru fyllilega sammála þeim öllum eða ekki eða vilja kannski draga í efa að þær skili þeim árangri sem flutningsmenn telja að þær eigi að gera. Það er eðlilegt að tekist sé á um það.

Það er engum blöðum um það að fletta, frú forseti, að við þurfum efnahagslegan vöxt. Við þurfum efnahagslegan vöxt til þess að koma okkur út úr þeirri efnahagslægð og þeim efnahagserfiðleikum sem við erum í í kjölfar þess hruns sem varð haustið 2008. Við þurfum efnahagslegan vöxt til að tryggja atvinnu í landinu, til að tryggja velferð í landinu, til að tryggja menntun í landinu, til að tryggja undirstöður fyrir framtíðarkynslóðir, komandi kynslóðir í landinu, fyrir börnin okkar. Við þurfum á því að halda.

Við þurfum líka að tryggja að sá vöxtur sé byggður á sjálfbærum forsendum. Af hverju? Vegna þess að við megum ekki búa þannig um hnútana að við göngum á auðlindirnar í einhverju fljótræði á kostnað komandi kynslóða. Þarna þarf að vera eðlilegt samspil á milli og ég vonast til að við getum verið sammála um það. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji sig þegar lagt er til að auka heildarafla þorsks um 35 þús. tonn: Er það skynsamlegt? Er það á sjálfbærum forsendum? Menn geta að sjálfsögðu deilt um það. Vísindamenn geta hugsanlega deilt um það. Stjórnmálamenn geta það líka að sjálfsögðu því að engum er betur lagið að deila um hluti en einmitt stjórnmálamönnum. En það er eðlilegt að sett séu spurningarmerki við svona hluti.

Hið sama á við um orkunýtinguna. Hún verður líka að vera á sjálfbærum forsendum. Þar hefur okkur sannarlega greint á í íslenskum stjórnmálum um langt skeið. Það verður örugglega ekkert lát á því, en það er mikilvægt frá mínum bæjardyrum séð að orkunýtingin sé á sjálfbærum forsendum.

Af því ekki er hægt að komast yfir allt á stuttum ræðutíma í fyrri umr. um þingsályktunartillögu langar mig til að ræða aðeins um skattamálin.

Hv. þingmaður Björn Valur Gíslason vakti athygli á því í andsvari við ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að náðst hefði verulegur árangur með skattkerfisbreytingunum sem gerðar voru, m.a. með því að hlífa tekjulágum hópum en leggja auknar byrðar á þá sem hafa meira úr að spila. Brugðist var við og sagt að þessar skattkerfisbreytingar hefðu ekki orðið fyrr en 2010. Það er rangt. Breytingar voru gerðar 1. júlí 2009 með því að setja sérstakan 8% aukaskatt á tekjur yfir 700 þúsundum, ef ég man rétt, og síðan tók þrepaskipti skatturinn að fullu gildi 1. janúar 2010. Það voru sannarlega komnar breytingar fyrir hálft árið 2009 inn í þær upplýsingar sem teflt var fram.

Auðvitað vitum við alveg að það hefur verið ágreiningur. Ég tek undir með hv. þingmanni Bjarna Benediktssyni um að skattkerfið er ekki alveg flatt vegna persónuafsláttarins, að sjálfsögðu, jafnvel þótt það sé ein prósentutala. En spurningin er hversu prógressíft maður vill hafa skattkerfið engu að síður. Þar höfum við verið þeirrar skoðunar að það ætti að vera stigvaxandi, stighækkandi í ríkari mæli en flöt, einföld prósenta með persónuafslætti gefur. Það hefur sýnt sig með þeim breytingum sem þegar hafa verið gerðar að það kemur betur út fyrir tekjulága hópa.

Mér fannst líka aðeins koma fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar að þeir sem hafa úr meiru að spila muni ekki sætta sig við að borga meiri skatt, þeir muni ekki sætta sig við að borga hærri tekjuskatt, þeir muni ekki sætta sig við að borga auðlegðarskatt eða fjármagnstekjuskatt eða þess háttar, heldur fari þá bara úr landi.

Er það þá þannig að þeir sem bera meira úr býtum eigi einfaldlega að setja leikreglurnar og geti bara sagt hinum að éta það sem úti frýs? Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta ekki viðkunnanleg nálgun. Það verða auðvitað allir að leggja sitt af mörkum til samfélagsins, til þeirrar samfélagslegu þjónustu sem allir vilja að sé í boði, velferðarþjónustu, menntakerfið, innviði samfélags, samgöngur, fjarskipti o.s.frv. Það verða auðvitað allir að leggja sitt af mörkum og það verður að gera þá kröfu til fólks í samfélagi að það sé reiðubúið til þess að leggja sanngjarnan skerf til samfélagsins og það sé tekið tillit til þess úr hverju það hefur að spila.

Margir af þeim sem hafa úr miklu að spila hafa notið t.d. góðs menntakerfið sem samfélagið hefur byggt upp þannig að auðvitað höfum við öll einhverjar skuldbindingar við samfélagið sem við erum vaxin upp í og höfum notið góðs af, að sjálfsögðu. Við eigum að sýna það með því að við séum reiðubúin til að leggja síðan okkar af mörkum þegar við höfum aðstæður til og í samræmi við það sem við höfum aðstæður til.

Varðandi ýmsar aðrar hugmyndir sem komið hafa fram vil ég segja sumar þeirra eru þess eðlis að ég tel klárlega að vinna eigi með þær áfram. Hér er vikið að hlutum eins og fyrningarfrestinum og greiðsluaðlögun sem þegar eru til staðar að einhverju marki og má vel hugsa sér að vinna með þá frekar og gera jafnvel frekari breytingar á þeim í samræmi við hugmyndir Sjálfstæðisflokksins. Það eru möguleikar fyrir hendi í kerfinu til að lækka greiðslubyrðina að einhverju marki. Hér eru ákveðnar hugmyndir um að ganga mun lengra í því efni. Ég tel fulla ástæðu til þess að fara betur yfir það.

Ég vil nefna að það eru og hafa verið ákveðin atriði á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og sum af þeim hafa þegar komið fyrir Alþingi og verið afgreidd, eins og framlenging á heimildum til að fresta nauðungarsölum, fyrningarmálin, heimildir til umboðsmanns til þess að veita skuldugum heimilum skjól fyrir uppboðum o.fl. Við höfum verið að skoða möguleikann á heimildum til innheimtumanna ríkissjóðs til þess að fella niður skattskuldir. Við höfum fjallað um skattlagningu niðurfellinga, hvernig á að fara með þær og aukið skjól fyrir ábyrgðarmenn á lánum. Það er því ýmislegt sem rætt hefur verið. Síðan er undirbúnings frumvarp vegna gengislánanna.

Ég segi einfaldlega: Það eru auðvitað fjöldamargir þættir sem eru í skoðun og athugun á vegum ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því að fá innlegg í þá umræðu frá stjórnarandstöðuflokkunum. Ég vænti þess að það fari að sjá fyrir endann á vinnu starfshópsins sem hefur verið að greina öll þessi gögn. Ég get alveg viðurkennt að ég er sjálfur orðinn býsna óþreyjufullur gagnvart því og tel (Forseti hringir.) að það liggi á að grípa til ráðstafana (Forseti hringir.) og ég vænti þess að það verði gert fljótlega. En ég (Forseti hringir.) fagna þeirri umræðu sem fram fer um þessi mál.