139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er í sjálfu sér ekki ósammála því. Sjálfsagt er að byggja inn hvata í skattkerfið með ýmsum hætti og skattkerfið er hægt að nota og á að nota með margvíslegum hætti. Það á m.a. að nota til tekjujöfnunar í samfélaginu. Að sjálfsögðu er hægt að gera það. Menn geta líka að sjálfsögðu gengið of langt í skattalegu tilliti. Menn geta farið of hátt með skattprósentur. Hér þarf auðvitað alltaf ákveðið jafnvægi að vera til staðar.

Nú stöndum við frammi fyrir því í ríkisrekstri okkar að við þurfum bæði að skera niður og auka tekjur. Þannig er hin raunverulega staða sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum kosið að fara blandaða leið. Sumir hefðu kannski viljað hafa skattahækkanirnar meiri og niðurskurðinn minni. Aðrir hefðu viljað hafa þetta öfugt. Ég tel að við séum á skynsamlegu róli í þessu efni. Ég tek samt undir og svara játandi fyrirspurn hv. þingmanns. Að sjálfsögðu er hægt að nota skattana í þeim tilgangi sem hann talaði um, sem einhvers konar hvata til að örva hagvöxt (Forseti hringir.) í samfélaginu.