139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði áðan í andsvari að Sjálfstæðisflokkurinn legði mikla áherslu á að styrkja lítil og meðalstór fyrirtæki, þau væru hryggjarstykkið í atvinnulífi okkar. Ég er sammála því. Ég tel skipta miklu máli að almenna atvinnulífið í landinu nái vopnum sínum á nýjan leik og fari að vaxa og blómstra. Í gegnum það tel ég að hagvöxtur verði.

Ég tel að núna séu mörg jákvæð teikn á lofti hjá okkur og jákvæðir hlutir að gerast. Verðbólgan hefur verið á niðurleið. Vextirnir hafa verið á niðurleið. Atvinnuleysi hefur farið minnkandi. Ég tel því að ýmislegt bendi til þess að almenna atvinnulífið í landinu fari nú að ná sér á strik og það mun sannarlega leiða til aukins hagvaxtar.