139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:06]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að við þurfum auðvitað að ná hagvexti þar sem störfin eru flest í landinu. Það er hjá litlu og meðalstóru fyrirtækjunum. Eitt af því versta sem hefur gerst hér í krísunni síðan ríkisstjórnin tók við er sú stöðnun sem hefur ríkt varðandi endurskipulagningu skuldsettra fyrirtækja. Talið er að um 7.000 fyrirtæki þurfi endurskipulagningu en einungis nokkur hundruð þeirra hafa fengið hana hjá bönkunum.

Aðeins um skattana. Spurt er hvort við látum í það skína að þeir sem best hafi það á Íslandi eigi ekki að leggja mest til. Jú, við erum þeirrar skoðunar en það eru efri mörk á því hversu langt má ganga í aukinni skattlagningu á þá sem eru eignamestir og tekjuhæstir. Horfum t.d. til Danmerkur. Þar höfum við skýrt dæmi úr fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Í Danmörku eru 1.000 milljarðar danskra króna í skattaskjólum frá atvinnustarfsemi og einstaklingum vegna þess hvernig skattstigið er þar — 1.000 milljarðar danskra króna sem skatturinn er á eftir. Ég er ekki að segja að peningar muni streyma í þeim mæli úr landinu vegna (Forseti hringir.) auðlegðarskattsins en hann er eignarskattur og eignarskattur er ósanngjarn (Forseti hringir.) vegna þess að hann leggst ekki bara á stóreignafólk. Hann leggst líka á fólk á efri árum, eldri borgara og þá (Forseti hringir.) sem hafa notað (Forseti hringir.) starfsævi sína til (Forseti hringir.) að koma sér upp ævisparnaði.