139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þingmanni að endurskipulagning skuldsettra fyrirtækja hefur gengið of hægt — allt of hægt. Þar tel ég að sé fyrst og fremst við bankakerfið að sakast. Ég tel mjög brýnt að spýtt sé í lófana hvað þau mál varðar.

Varðandi eignarskattinn. Ég er ekki sammála hv. þingmanni að eignarskatturinn eða auðlegðarskatturinn eða hvað menn vilja kalla hann sé ósanngjarn vegna þess að hann leggist ekki bara á stóreignafólk. Eins og hann er útfærður er auðvitað gert ráð fyrir frítekjumarki þannig að hann leggst á hreina eign yfir 100 millj. kr. eða rúmlega það hjá hjónum. Það eru auðvitað mikil verðmæti þegar um er að ræða hreina eign að frátöldum skuldum. Þetta eru stórar og miklar eignir. Mér finnst það nú ekki vera gustuk fyrir þá sem þannig er ástatt um að leggja eitthvað til í formi auðlegðarskatts. Auðvitað má alltaf deila um hvernig svona hlutir eru útfærðir og hvar einstök viðmiðunarmörk eiga að (Forseti hringir.) liggja.