139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr: Er ekki mikilvægara að hafa vinnu nú heldur en eftir tíu ár? Ég get ekki svarað þeirri spurningu. Ég veit ekki hvernig staðan verður í íslensku samfélagi eftir tíu ár. Það getur vel verið að á þeim tímapunkti séum við í slíkri stöðu að jafnmikilvægt sé að hafa jafnmikla vinnu þá eins og nú. Það er ómögulegt að svara því. En auðvitað er mikilvægt að efla atvinnustigið í landinu í dag, skapa fleiri störf, skapa hagvöxt. Um það er enginn ágreiningur, held ég. Ágreiningurinn er meira um það hvaða leiðir eru færar.

Þingmaðurinn talaði líka um að við værum að stefna í stöðnun. Ég er þeirrar skoðunar að við allar efnahagsaðgerðir, hvort sem eru sérstakar aðgerðir til að taka á skuldsettum heimilum eða fyrirtækjum eða almennar aðgerðir eins og í ríkisfjármálum með fjárlögum, niðurskurði og slíku, verði að meta hin heildarþjóðhagslegu áhrif á samfélagið. Hvort hætta sé t.d. á því með niðurskurðinum (Forseti hringir.) að við kælum hagkerfið of mikið. Það er mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að fram fari mat á því á vettvangi þingsins (Forseti hringir.) á næstu dögum og vikum.