139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[13:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að líta þurfi á allt þjóðfélagið í heild sinni en líka framtíðina, til 10, 15, 20 ára til að sjá hvernig það virkar. Þetta er svipað eins og maður ætti jörð sem væri að blása upp. Mikill uppblástur væri og öll túnin væru að blása burt. Í þeirri stöðu er mjög mikilvægt að rækta áður en allt túnið verður að klöpp. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa vinnu núna en ekki eftir tíu ár því þá er allt orðið að auðn. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir heimilin. Hugsum okkur fjölskyldur sem ná ekki endum saman og standa frammi fyrir því að þurfa að borga námslán. Það er töluvert mikið um háskólafólk sem stendur frammi fyrir þessu vali: Á ég að fara til útlanda og vinna þar fyrir miklu hærri laun og get þá borgað námslánin mín og átt fyrir bíó einu sinni í mánuði? Þetta er staðan sem fólkið stendur frammi fyrir.