139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:30]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einkar athyglisvert ef það er sérstaklega þakkarvert að svara spurningum sem til manns er beint, en ég þakka bara á móti fyrir þær þakkir. Ég svaraði þeirri spurningu til að tryggja að ráðherrann hefði örugglega skilið rétt það sem ég sagði.

Hæstv. ráðherra vísaði í Tamíla-málið en þannig var að fram kom tillaga um það frá dönsku þingmannanefndinni að ákæra fleiri en bara Ninn-Hansen, þar á meðal, held ég, vegna hinnar frægu teppa-ræðu, sem svo var kölluð, þar sem Poul Schlüter fór hreinlega með mjög villandi upplýsingar gagnvart þinginu, sópaði þeim undir teppið.

Ég tel að löggjöf af þessu tagi sé mjög mikilvæg til að koma í veg fyrir trúnaðarbrest sem getur orðið milli þings og ráðherra, að koma í veg fyrir að af ásetningi sé verið að gefa Alþingi rangar upplýsingar eða leyna það upplýsingum við meðferð mála. Það þýðir nefnilega að Alþingi getur í framhaldinu tekið rangar ákvarðanir af því það hefur ekki réttar upplýsingar til að byggja ákvarðanir sínar á. Það er svo spurning hvernig hægt væri að útfæra það betur og væntanlega er það eitt af því sem stjórnlagaþingið þarf að skoða, að tryggja betur að ráðherra geti ekki leynt þingið upplýsingum og geti ekki heldur haldið upplýsingum frá öðrum ráðherrum, eins og við sáum ítrekað árið 2008. (Utanrrh.: Tillagan er ekki um það.) Tillagan er ekki um það vegna þess að þetta er lagabreyting, ein grein sem varðar lög um ráðherraábyrgð, en ekki tillaga um breytingar á stjórnarskránni sem þyrfti væntanlega að koma inn á ef taka ætti á upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart ríkisstjórninni. Ef allsherjarnefnd telur að á einhvern hátt sé hægt að koma því inn í þessi lög um ráðherraábyrgð hvet ég (Forseti hringir.) til þess.