139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps ásamt hv. þm. Eygló Harðardóttur og fleirum og ég kem upp til að ræða það og rökstyðja af hverju við teljum nauðsynlegt að leggja það fram núna.

Það er auðvitað augljóst í kjölfarið á þeirri reynslu sem við höfum í þinginu eftir rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem bent var á margt sem fór úrskeiðis í stjórnsýslunni og hjá framkvæmdarvaldinu að veruleg þörf er á að koma meiri aga inn í stjórnsýsluna. Ein af þeim leiðum væri m.a. að tryggja meira gegnsæi í fundargerðum og minnispunktum sem eru skráðir þannig að upplýsingar sem þingmenn til að mynda eiga að geta fengið hér með því að spyrja ráðherra séu skýrar og grundvallaðar á raunverulegum hlutum en ekki eins og oft er og kom fram í umræðunni fyrr í dag þar sem reynt er að tala í kringum svarið án þess kannski að segja neitt. Það er auðvitað ákveðin list en það má hins vegar ekki verða þannig að menn komist upp með að segja ósatt eða leyna upplýsingum.

Við sem sátum í þingmannanefndinni frægu sem fjallaði um rannsóknarskýrsluna og viðbrögð Alþingis við henni fórum auðvitað ítrekað og vel í gegnum það sem skorti og vantaði upp á, að við hefðum nægileg tæki og tól til að taka á málum í samfélaginu. Eitt af því sem kom verulega til tals í umræðunni um ráðherraábyrgðina á sínum tíma, í septemberumræðunni, voru lög um ráðherraábyrgð. Þar á meðal var talsvert rætt um 10. gr. þar sem við gerum hér tillögu um að bætt verði við einum staflið, c-lið. Það gætti verulegs ósamræmis eða vanþekkingar í umræðunni um að öll 10. gr. væri ekki nógu skýr, vegna þess að sérfræðingar í landinu hefðu í langan tíma skrifað lærðar greinar um ráðherraábyrgðarlögin og ekki síst um 10. gr. Niðurstaðan hefur ævinlega verið sú að a-liður greinarinnar sé ekki nógu skýr. Það þarf virkilega að fara ofan í það mál og velta fyrir sér með hvaða hætti sá stafliður á að hljóma svo hann hafi í raun og veru eitthvert valdsvið og hægt sé að beita honum með einhverjum hætti í ráðherraábyrgðarlögunum. Aftur á móti hefur það komið fram margsinnis líka að b-liðurinn sé ákaflega skýr og þurfi ekki að velkjast í neinum vafa um hann.

Við leggjum sem sagt til að við bætist stafliður c, svohljóðandi: „ef hann af ásetningi gefur Alþingi rangar upplýsingar eða við meðferð máls á Alþingi leynir upplýsingum.“ Brot gegn þessu varða samkvæmt 11. gr., eftir málavöxtum, embættismissi, sektum eða fangelsi, eins og þar segir.

Ástæðan fyrir því að þetta er lagt fram núna er sú að það kom fram í skýrslu um eftirlit Alþingis sem m.a. var unnin af Bryndísi Hlöðversdóttur, Ragnhildi Helgadóttur og Andra Árnasyni og fleirum, sem kom út í fyrrahaust og við höfðum til hliðsjónar í vinnu okkar í þingmannanefndinni og eins í þessu máli, að það væri þörf á að fara í breytingar á ráðherraábyrgðarlögunum til að skýra ákveðna þætti og bæta. Og einn af þeim er sá sem við leggjum hér til breytingar á.

Til að taka nýlegt dæmi um hvar hægt væri að sjá fyrir sér að þetta væri hægt er auðvitað dæmi eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi um svör þáverandi hæstv. viðskipta- og efnahagsráðherra, Gylfa Magnússonar, um gengistryggð lán þar sem má alveg fullyrða að upplýsingum hafi verið leynt eða a.m.k. gefnar villlandi upplýsingar. En okkar texti er skýrari. Hins vegar má líka halda þessu fram með góðum rökum í sambandi við upplýsingar um Icesave-samninginn á sínum tíma, í byrjun júní, á miðvikudegi 3. júní, ógleymanlegum degi í þinginu, þegar formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, kom hér upp í óundirbúnum fyrirspurnum og spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort það stæði til að skrifa undir Icesave-samning á næstu dögum eða næstu vikum. Þá svaraði ráðherrann því til að það væri langur vegur frá því, það væri verið að hefja grunnvinnu í því. Tveimur sólarhringum síðar var búið að skrifa undir þennan samning. Það er því alveg augljóst að í þessu tilviki gaf hæstv. fjármálaráðherra hreinlega rangar upplýsingar. Ég held að það sé alveg ljóst.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fáum umfjöllun um þetta í allsherjarnefnd og í þinginu og bætum þessum lið við á meðan við höfum þessi lög óbreytt. Ég hef þá trú að þetta bæti agann í stjórnsýslunni. Ég hef þá trú að þetta geri það að verkum að ráðherrar gæti sín við upplýsingagjöf til þingsins. Ég tel að þetta geri það að verkum að þeir reyni að hafa gögn til hliðsjónar til stuðnings máli sínu til að geta sýnt fram á að þeir hafi farið með rétt mál. Ég tel að þetta sé einn liður í því að bæta stjórnsýsluna á Íslandi sem vissulega er þörf á og er eitt af því sem við þurftum að læra svo grimmilega af í hruninu að var ábótavant hjá okkur.

Ég legg til að málið fari til allsherjarnefndar eins og fram hefur komið og fái þar faglega umfjöllun og komi svo aftur til þingsins.