139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[13:53]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að leggja orð í belg um það ágæta frumvarp sem hér er til umfjöllunar er varðar breytingu á ráðherraábyrgðarlögunum þar sem lagt er til eins og segir í lok greinargerðarinnar „að lögfest verði ákvæði sem mælir fyrir um refsiábyrgð ráðherra veiti hann þinginu rangar upplýsingar eða leyni upplýsingum þegar mál er til meðferðar í þinginu.“

Ég held að ekki sé vanþörf á því að skerpa þær reglur sem mæla fyrir um sannleiksskyldu ráðherra gagnvart þinginu og þetta frumvarp varðar í rauninni kjarnann í samskiptum löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.

Ég vék að þessu atriði fyrir nokkrum vikum eða mánuðum þegar skýrsla þingmannanefndar Alþingis sem starfaði undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar var hér til umfjöllunar, en a.m.k. tveir af þeim hv. þingmönnum sem flytja þetta mál, Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson, sátu einmitt í þeirri nefnd. Ég minnist þess að hafa beint þeim tilmælum og tillögum til nefndarinnar að inn í skýrslu hennar og í þingsályktunartillöguna sem fylgdi skýrslunni yrði komið á framfæri sjónarmiðum og tillögum sem mæltu fyrir um að ráðherrum yrði gert skylt að svara umbúðalaust og sannleikanum samkvæmt þeim fyrirspurnum sem til þeirra væri beint í þinginu af þingmönnum. Það væri auðvitað grundvallarforsenda þess að þingið gæti veitt framkvæmdarvaldinu það aðhald sem því er ætlað að veita.

Því miður tók þingmannanefndin ekki undir þessa áskorun mína. Hv. þm. Eygló Harðardóttir, 1. flutningsmaður þessa frumvarps, getur kannski upplýst mig um hvers vegna það var ekki gert en tillagan kom fram úr þessum ræðustól og það ekki að ástæðulausu.

Menn hafa haft mörg orð í þessum ræðustól og á opinberum vettvangi um umræðuhefð á Alþingi og margir rekið hornin í þau vinnubrögð sem hér eru viðhöfð og ekki síst framgöngu þingmanna og ráðherra hverjir gagnvart öðrum. Menn hafa haft uppi stór orð um að umræðuhefðin hér sé slæm og henni hafi farið hrakandi. Ég hef setið á þingi frá árinu 2003 og ég verð að segja það fyrir mitt leyti, vegna þess að ég hef samanburðinn, að ég tel að umræðuhefð á Alþingi hafi að mestu leyti batnað á þeim sjö árum sem ég hef verið hér innan veggja. Hvað á ég við með því? Ég á við það að gerðar hafa verið grundvallarbreytingar á þingsköpum sem hafa gert umræðurnar í þingsalnum skilvirkari. Við búum ekki við þann veruleika sem við þurftum að upplifa t.d. á árunum 2004 og 2005 þegar hv. þingmenn héldu hér ræður samfleytt í fimm, sex og allt upp í sjö klukkutíma um einstök mál. Þar fóru auðvitað fremstir í flokki menn sem núna berja sér á brjóst og tala fyrir bættri umræðuhefð á þinginu. Menn eins og hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon og hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra Ögmundur Jónasson. Menn sem héldu hér ræður klukkustundum saman og töfðu öll þingstörf von úr viti. Í þá daga var umræðuhefðin á þinginu slæm og það má vel vera að hana megi bæta við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Ég leyfi mér að halda því fram að að þessu leyti hafi umræðuhefðin á Alþingi batnað en hún hefur versnað tilfinnanlega hvað eitt atriði varðar. Það varðar framkomu framkvæmdarvaldsins gagnvart þinginu. Það hefur nefnilega gerst hér í störfum þingsins að hæstv. ráðherrar hafa á síðustu missirum gengið lengra og lengra í því að forðast að svara spurningum sem þingmenn beina til þeirra, annaðhvort svara þeir ekki spurningunum eða þeir svara þeim með útúrsnúningum og einhverju tali út í loftið. Síðan eru auðvitað dæmi um ráðherra sem allt bendir til að hafi haldið upplýsingum frá þinginu sem þeir höfðu á þeim tíma sem þeir voru að veita svör við spurningum.

Ég get auðvitað nefnt fjölmörg dæmi um það með hvaða hætti ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa komið fram gagnvart þinginu. Ég minnist þess t.d. þegar ég varpaði hér fram ítrekað spurningum til hæstv. forsætisráðherra um launakjör núverandi seðlabankastjóra og önnur ráðningarkjör, eðlilegar spurningar sem vöknuðu í tengslum við allt ástandið sem átti sér stað á þeim tíma í kringum Seðlabankann. Þeim spurningum var auðvitað aldrei svarað af hálfu hæstv. forsætisráðherra að öðru leyti en því að benda á einhver óskyld atriði og beita útúrsnúningum um atriði sem ekki bara þingið heldur fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu vildu fá upplýsingar um.

Ég get líka nefnt það að ég spurði hér ekki alls fyrir löngu hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra í tvígang að því hvort hann styddi fjárlagafrumvarp eigin ríkisstjórnar. Svo kom hv. þm. Einar K. Guðfinnsson og spurði hæstv. ráðherra í þriðja skiptið hvort hann styddi fjárlagafrumvarpið. Þessari einföldu spurningu var ekki svarað af hálfu hæstv. ráðherra svo ég tali nú ekki um almenn svör hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við svörum hv. þingmanna á Alþingi. Það er alveg sama um hvað sá hæstv. ráðherra er spurður, hann svarar aldrei þeim spurningum sem að honum er beint.

Þetta eru auðvitað mælskubrögð sem þessir þrír hæstv. ráðherrar hafa beitt í pólitískri umræðu en hlutirnir verða auðvitað miklu alvarlegri þegar ráðherrar gefa Alþingi af ásetningi rangar upplýsingar eða leyna þingið upplýsingum við meðferð máls á Alþingi. Í þessu frumvarpi er lagt til að slík framganga ráðherra verði gerð refsiverð samkvæmt lögunum um ráðherraábyrgð.

Tvö atriði koma auðvitað upp í hugann þegar menn setja þau í samhengi við efni þessa frumvarps. Þar á ég í fyrsta lagi við þau svör sem hæstv. þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, veitti hér við fyrirspurn um gengistryggð lán sem síðar voru dæmd ólögmæt. Og síðast en ekki síst svör hæstv. fjármálaráðherra 3. júní árið 2009 þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði hæstv. fjármálaráðherra að því hvort til stæði að undirrita Icesave-samningana og hæstv. fjármálaráðherra lýsti því hér yfir að það stæði ekki til. Tveim dögum seinna var búið að undirrita þennan samning.

Trúir því einhver að hæstv. fjármálaráðherra hafi á þeim tíma þegar hann veitti svörin við spurningum þingmannsins ekki haft upplýsingar um að til stæði að undirrita samningana? Ég held að ýmislegt bendi til þess að hann hafi á þeim tíma leynt Alþingi upplýsingum. Á þetta benti hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum þessum upplýsingum til haga og minnum á það með hvaða hætti þessir ráðherrar hafa komið fram gagnvart þinginu, ekki bara í því pólitíska hanaati sem hér á sér stundum stað, heldur líka þegar þeir eru inntir svara við spurningum sem varða mikla þjóðhagslega hagsmuni.

Ég verð að segja að að þessu leyti hefur umræðuhefðin og framganga framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu snarversnað á Alþingi á umliðnum missirum. Ég tel að það sé full ástæða til að á því sé tekið og það er einmitt verið að leggja það til í þessu frumvarpi að slíkt verði gert.

Ég hef kynnst vinnubrögðum í mörgum þjóðþingum landanna í kringum okkur sem við viljum helst bera okkur saman við. Ég sat í Norðurlandaráði í ein þrjú eða fjögur ár og kynntist vel starfsemi þjóðþinga á öllum Norðurlöndunum. Ég minnist þess ekki, með einni undantekningu sem hér hefur verið gerð grein fyrir, að ráðherrar á Norðurlöndunum gangi fram með sama hætti gagnvart þingmönnum og sérstaklega stjórnarandstöðuþingmönnum eins og ráðherrar í núverandi ríkisstjórn Íslands gera gagnvart okkur. Ég minnist þess heldur ekki og hef ég heimsótt bæði bandaríska þingið og breska þingið að ráðherrar þar komist upp með það að svara ekki þeim spurningum sem að þeim er beint. Þar svara menn þeim spurningum sem til þeirra er varpað umyrðalaust og geri þeir það ekki hefur það afleiðingar.

Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu er það þannig að núverandi löggjöf um ráðherraábyrgð tekur ekki til ábyrgðar ráðherra gagnvart Alþingi ef hann greinir því rangt frá, gefur þinginu villandi upplýsingar eða leynir það upplýsingum. Ráðherrar hafa því ekki nauðsynlegt aðhald og geta því freistast til þess að gefa Alþingi rangar eða villandi upplýsingar eða leynt það viðkomandi upplýsingum. Þetta getur því leitt til óvandaðrar málsmeðferðar og orsakað fullkominn trúnaðarbrest milli Alþingis og ráðherra. Það er einmitt það sem við upplifum núna, það er mikill trúnaðarbrestur milli þings og framkvæmdarvalds.

Eins og heyra má er ég efnislega fylgjandi því frumvarpi sem hér er lagt fram og mælt hefur verið fyrir. Ég hefði eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar gjarnan viljað sjá þessi sjónarmið koma fram í skýrslu þingmannanefndar Alþingis og benti á að nauðsynlegt væri að koma slíkum ábendingum og tillögum inn í þá skýrslu vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru í þinginu og hafa verið um nokkra hríð. Því miður var það ekki gert. En úr því er bætt með þessu frumvarpi og ég sem nefndarmaður í allsherjarnefnd get lýst því yfir að ég er reiðubúinn til að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til þess að reyna að tryggja það að málið fái framgang í þinginu.

Að lokum vil ég þakka hv. þingmönnum sem standa að framlagningu þessa frumvarps fyrir það frumkvæði sem þeir hafa sýnt með því að leggja þetta mál fram. Jafnvel þó að hv. fyrrverandi þingmaður, Páll Pétursson, hafi gert það hér í fyrndinni eins og fram kemur í greinargerð held ég að það sé engin spurning að við þær aðstæður sem nú eru uppi í þinginu og í samskiptum framkvæmdarvaldsins við löggjafarvaldið sé enn meiri nauðsyn að leggja fram slíkt frumvarp en var þegar það var lagt fram í upphafi.