139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:10]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað getur maður ekkert fullyrt í þessu. Ég leyfi mér þó að segja að ég er ekki sérstaklega trúaður á að þegar hæstv. fjármálaráðherra lýsti því yfir hér í þinginu að ekki stæði til að undirrita samninga, hafi hann ekki haft upplýsingar um að það stæði til. Ég trúi því ekki að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið svo úti á þekju varðandi framgang Icesave-málsins tveimur dögum fyrir undirritun að hann hafi ekki vitað að til stæði að undirrita samninga. Sé það svo að hæstv. ráðherra hafi vitað hvað gekk á, þá er algjörlega einsýnt að það hlýtur að varða við þá tillögugrein sem fram kemur í frumvarpinu. Ég hef sjálfur hvatt til að þessi atriði, yfirlýsing ráðherrans og framganga hans að öðru leyti í Icesave-málinu, verði rannsökuð sérstaklega. Ég gerði það með því að leggja fram þingsályktunartillögu um rannsókn á embættisfærslum ráðherra og embættismanna í tengslum við Icesave-málið, m.a. af þessari ástæðu.

Til að svara spurningu hv. þingmanns þá finnst mér mjög margt benda til að svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn þingmannsins hafi verið þess eðlis að hann hafi ekki upplýst þingið um allt sem hann vissi á þeim tíma um málið.