139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann vel að vera að eitthvað hafi gerst áður en við komum inn á Alþingi, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, að eitthvað hafi verið sagt eða ekki sagt í ræðustól sem þetta gæti átt við. Við höfum hins vegar hlustað á þá síbylju frá ríkisstjórninni að nú eigi allt að breytast, breytt vinnubrögð og ég veit ekki hvað, menn tala jafnvel um kraftaverk og slíkt.

Ég ætla að lesa upp úr ræðu fjármálaráðherra 3. júní, með leyfi forseta:

„Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga …“

Þann 5. júní segir hæstv. fjármálaráðherra:

„Síðdegis í gær varð sú framþróun í þessum viðræðum að þá fór að líta út fyrir að mögulega gæti náðst lending.“

Við vitum hvað gerðist 5. júní. Það var kynntur í þingflokkum samningur sem samningamaður Íslands, eða þeir sem voru að véla með þetta, höfðu samþykkt.

Telur hv. þingmaður að það frumvarp sem nú er til umfjöllunar geti mögulega átt við í þessu tilfelli? Ef ekki hljótum við að lýsa mikilli ánægju með hvers konar kraftaverk eiga sér stað í fjármálaráðuneytinu og hjá þeim sem sinntu þessu máli, að frá 3. júní til 5. júní — væntanlega hafa nú einhverjir lagt sig á meðan — hafi orðið slík framþróun í þessum viðræðum og í þessum samningum að hægt hafi verið að galdra fram samkomulag sem var undirritað og klárt upp á tugi blaðsíðna, byggt á gögnum sem voru þannig að það varð að fela þau í möppu. Er það virkilega þannig að þetta hafi verið hægt? Eða telur hv. þingmaður að mögulega — mögulega — geti þetta (Forseti hringir.) átt við það sem við erum hér að fjalla um?