139. löggjafarþing — 21. fundur,  5. nóv. 2010.

ráðherraábyrgð.

72. mál
[14:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað getur þetta frumvarp ekki átt við þetta einstaka mál enda er það ekki afturvirkt frekar en önnur lög sem við setjum. Þetta er ekki afturvirkt, þannig að ekki er verið að setja þetta fram til að draga þetta í ljós eða eitthvað slíkt. En væntanlega mun Alþingi samþykkja hér að fara í rannsókn á Icesave-málinu, hvernig haldið var á því, þá mun þetta vonandi koma fram.

Ég spyr hv. þingmann einfaldlega þeirrar spurningar, af því mönnum er tamt oft og tíðum að horfa í baksýnisspegilinn og rifja upp ýmis mál, (Gripið fram í: Kemur fyrir.) — kemur fyrir, já, og hv. þingmaður nefndi hér nokkuð áðan sem er svo sannarlega … sá sem hér stendur leggst ekki gegn því að þau séu skoðuð enn og aftur og ofan í kjölinn.

Hæstv. fjármálaráðherra segir í þessum ræðustól 3. júní, með leyfi forseta:

„Ég held ég geti fullvissað hv. þingmann“ — og var þá að svara hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni — „að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga …“

Síðan, 5. júní, kemur fram og er kynnt í þingflokkunum niðurstaða í þessu máli. Nú hefur hv. þm. Björn Valur Gíslason sinnt þessu máli afar mikið og vel fyrir sinn flokk og fyrir Alþingi, þessu Icesave-máli, (PHB: Ekki þjóðina.) — gerir sér því grein fyrir því hvers konar gríðarlega stórt þetta mál er að vöxtum, allir pappírar og allt sem þar er á bak við. Getur verið að svona stóru máli hafi verið lent á einum og hálfum sólarhring — leyfi ég mér að segja því eitthvað hafa menn væntanlega hvílt sig — að slík framþróun hafi orðið að 3. júní hafi bara ekkert legið fyrir og það stæði ekkert til að gera samkomulag eins og hæstv. ráðherra sagði?

Ég er ekkert að velta mér upp úr því að ná í hnakkadrambið á ráðherranum út af þessu. Við erum hér með frumvarp til þess að koma í veg fyrir að svona lagað gerist aftur. Því er bara, (Forseti hringir.) af því hv. þingmaður nefndi það hér áðan, allt í lagi að velta þessu máli upp eins og ýmsum öðrum.