139. löggjafarþing — 22. fundur,  8. nóv. 2010.

Icesave.

[15:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar þessa dagana mikið um dagsetninguna 5. janúar, að þá hafi ég látið þau orð falla að ég vildi að málið leystist eins og það hafi komið hæstv. ráðherra svona rosalega í opna skjöldu að hann hafi skráð það sérstaklega í dagbókina sína 5. janúar. Að sjálfsögðu vil ég, og allir þingmenn held ég að mér sé óhætt að segja, að málið leysist. Þetta snýst ekki um það. Yfirlýsingar ráðherrans hafa ekki heldur snúist um vonir, vilja eða væntingar ráðherrans eins og hæstv. utanríkisráðherra gefur nú í skyn. Þær snerust um yfirlýsingar þess efnis að máli væri að klárast. Þetta voru fyrirheit hæstv. utanríkisráðherra í krafti embættisins sem slíks til erlendra stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna um að þetta mál væri að klárast.

Því spyr ég: Hvað hefur hæstv. ráðherra fyrir sér í því? Í öðru lagi ítreka ég spurninguna um aðkomu þjóðarinnar.